sólin úti smýgur inn,
setur á mig bros
...
seinnipart?
Leita í þessu bloggi
miðvikudagur, febrúar 22, 2012
Ég er jarðarber, en tölvan mín er ekki með blátönn svo ég get ekki sett inn mynd. óliver er einhver '80 gaur, lítur mest út eins og '80 raftónlistarmaður, með svart hrokkið hár, stór headphone, sjálflýsandi gleraugu, í '80 leðurjakka, pink floyd-the wall-bol og svörtum þröngum gallabuxum. mega-töff! ég er minna töff, enda þurfa jarðarber ekki að vera töff, bara góð!
þriðjudagur, febrúar 21, 2012
Ég gerði bollur úr spelti, með spelthveiti sem rann út seint á síðasta ári og vínsteinslyftidufti sem rann út um vorið 2010. Þær voru ,,áhugaverðar" í útliti en brögðuðust mjög vel. Óliver hámaði þær í sig með sultu, rjóma og bráðnu green&blacks 70%. Ég held ég ætti að prufa þessa uppskrift aftur með óútrunnu stöffi. 41 árs og geri bollur í fyrsta sinn... en með masterspróf í heimspeki. Svona er maður misþroska.
fimmtudagur, febrúar 16, 2012
Jæja draumaráðningaherrar mínir og frúr þarna úti, hér er afrakstur næturinnar: Ég var stödd í einhverjum heimi sem ekki er til í alvörunni, en mér fannst vera framtíðarheimur, og var þar að reyna að koma grænmeti sem ég hafði ræktað í verð. Ég var semsagt með rabbarbara og gúrkur sem ég hafði ræktað og hljóp á milli sjálfsala sem líka voru greiðsluvélar. Þú gast keypt grænmeti þar, en líka lagt inn grænmeti og fengið seðla borgaða undir eins. Ég hafði vafið grænmetinu í klút og haft inná mér, og það var mikið hættuspil að komast á milli þessara sjálfsala, því allir voru að reyna að ræna mig til að selja grænmetið mitt sjálfir. Ég þurfti að hlaupa yfir bersvæði, laus við gróður og liti, og það var þoka og kalt og ég var illa klædd. Ég fann fyrir návist þeirra sem voru að fylgjast með þeim sem voru á ferli en einhverra hluta vegna fékk ég að fara í friði, líklega ekki litið út fyrir að vera með söluvænt grænmeti innan klæða. Ekki tók betra við þegar ég hafði loks náð að finna sjálfsala sem var ekki annað hvort fullur af grænmeti eða tómur af seðlum. Ég fékk borgað og það mjög ríkulega, í fimmþúsundkallabúntum sem ég vafði í klútinn minn og setti í umslag sem var vatnshelt og setti aftur inn á mig. Þá átti ég eftir að hlaupa yfir mörg bersvæði til að komast með peningana mína í öruggt skjól. Áður en ég lagði í hættuförina taldi ég samt hvað ég átti mikið og mér taldist til að ég væri með rúmar þrjár milljónir í 5þúsund-köllum (!). Ég var glöð að eiga þennan pening, en jafnframt skíthrædd um að verða rænd og vaknaði með dúndrandi hjartslátt. Ætti ég að vera í sambandi við félag ylræktarbænda og stjórnvöld og benda þeim á fordæmi slíkra framtíðardraum úr Biblíunni? Eða er það að dreyma peninga kannski fyrir skít?
sunnudagur, febrúar 12, 2012
súfistinn og kaffihúsalíf mitt hefur heldur betur tekið jákvæðan kipp þegar ég þarf að fara þangað til að tékka á netinu. það er ekkert slæmt við það. hjólaði á auðum götum. hjólið mitt er fallegt, gott og afar viljugt til hjólatúra eftir svo langa inniveru vegna veðurs. ég lét víst ekkert verða af því að kaupa vetrardekk, og nú virðist ekki þörf fyrir það. það bara bíður betri tíma. hjólaferðir, here I come.
laugardagur, febrúar 11, 2012
Netið farið úr húsinu og því þarf ég að fara á kaffihús núna til að tjá mig hér eða annars staðar á netinu. Það er reyndar afar og afskaplega hollt að vera sjónvarps- og netlaus og hún fade-ar eiginlega strax út, sú mikla "þörf" sem maður telur sig hafa fyrir að hanga á netinu og gera eitthvað stupid. Ég er sátt við að hanga bara heima og gera eitthvað allt annað: Gera krossgátu, lesa bók, horfa á friends með elvari, fara í löng böð, elda góðan mat, spila á gítar, hlusta á vínilplötur, hlusta á rás 1 í eldhúsinu. Listinn er endalaust langur. Í dag fórum við á legókubbasýningu í ráðhúsinu með Beggu og Funa og svo á Prikið að fá okkur snarl og fara á netið. Það er orðið ágætt. Þeir eru að spila soft '70. Ég þarf að hreyfa mig aðeins meira úti. Ætla að stinga upp á nálægum róluvelli. Óliver verður áreiðanlega glaður með þá uppástungu. Júró í kvöld, heima hjá vinum, með vinum. Vinir eru góðir og mikilvægir.
mánudagur, febrúar 06, 2012
ég er á leiðinni út. veit ekki hvert, en þarf súrefni. súrefni sem vekur mig aðeins. grautur og kaffi og súrefni og ég ætti að hafa smá orku. annars er daginn nú tekinn að lengja og sem dæmi þá var ég á leiðinni frá keflavík til reykjavíkur á laugardagseftirmiðdag/snemmkvölds um tæplega hálfsex, og það var ennþá bjart! það dimmdi hins vegar hratt milli hálfsex og sex og var orðið fulldimmt áður en myndin sem ég fór á í bíó byrjaði (eldfjall, mjög góð, en líklega ekki það sem kalla má feelgood...). Hins vegar er mikið feelgood í því að taka eftir birtutíma lengjast, því ég er nú bara þeim ókostum búin að þola ekki myrkrið og kuldann. Þetta er semsé allt að koma. og á miðvikudag fer ég í klippingu og á fimmtudag eru tónleikar með sólstöfum sem ég syng á og svo bara verður farið í eitthvað massíft jógasessíon til að hrista upp í mannskapnum (mér, þ.e.a.s. mannskapurinn er ég, the royal we...) Jájá, dugir ekki að hanga bara eins og....setjið inn myndlíkingu við hæfi. Ég ætlaði að segja siginn fiskur á en mundi svo ekki hvað það heitir sem fiskar eru hengdir á. Er það sperra? neeei. Svo datt mér í hug að skrifa fáni, hanga eins og fáni á fánastöng, en það nær þessu ekki. whatevs. heehhe. Það dugir alla vega ekkert hangs, sama hverju það líkist. Febrúar, ég skora þig á hólm.
miðvikudagur, febrúar 01, 2012
Nú er bakið slæmt, og ég þarf að muna að ganga aftur. (hahaha, ganga aftur, náðuði þessum?) Annars hjólaði ég smá í gær, í fyrsta sinn síðan í október eða eitthvað og það var ansi hressandi, þótt ég gæti ekki slakað fullkomlega á sökum hálkuresta á stöku gangstéttum. Gangur er öruggari í þessu færi. Spá í að ganga í klukkutíma eða svo á eftir og fara svo á kaffihús. Bakið á eftir að þakka mér fyrir ganginn og heilinn þakkar mér fyrir kaffið. Ég sjálf hef ekkert með þetta að segja, bara geri það sem mismunandi líkamshlutar heimta af mér. Axlirnar myndu gjarnan vilja að ég héngi minna í tölvunni, og ég held að handakrikarnir séu að segja mér að fara í bað fljótlega...
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)