Leita í þessu bloggi

þriðjudagur, nóvember 29, 2016

Hjálpaðu mér að gefa út plötu!/Help me release an album!

Þetta er linkur: https://www.karolinafund.com/project/view/1554
Hann fer með þig á heimasíðu verkefnisins sem ég er með á söfnunarsíðu Karolinafund. það eru sex dagar til stefnu.
This link will take you to a page by karolinafund where I am collecting money. I have six days now.

mánudagur, nóvember 07, 2016

Hvað er að gerast hjá Heidatrubador?

https://www.karolinafund.com/project/view/1554

Þetta er linkur á karolinafund-söfnunina sem ég er með fyrir framleiðslu á nýjustu tónlistinni minni sem ég gef út undir nafninu Heidatrubador. Þetta er þjóðlagatónlist í víðustu merkingu þessa orðs, en þarna gætir samt lágstemmdra áhrifa (lo-fi) og ákveðins tilraunaanda í útsetningum. Ég leik á öll hljóðfæri, sem lög og texta og tók plötuna upp sjálf. Mig langar að gera vínylplötu, og svo líka nokkra geisladiska og jafnvel kassettur, til að allir geti hlustað á plötuna, sama hvaða format þeir vilja. Ég eru búin að gefa út 4 smáskífur af þessarri plötu: Life & dream (uppseld), Fast (uppseld), Root (2 eintök eftir) og Veerle (8 eintök eftir).Allar plöturnar eru númeruð eintök, sem hafa söfnunargildi er fram líða stundir. Hér má hlusta á Veerle:Hér má hlusta á Life & dream, Fast og Root:

https://heidatrubador.bandcamp.com/album/root

Ef þið viljið fjárfesta í sjö-tommum er hægt að hafa samband við mig, til dæmis í gegnum tölvupóstinn heidatrubador (at) gmail (punktur) com. Þið megið líka alveg senda mér póst bara af því bara, það er gaman að fá bréf að lesa, og stundum fær maður svo mikla leið á facebook og langar að vera í sambandi á annan hátt.
Veerle-sjötomman er með remixi frá Curver og er á svörtum vínil. Sú plata kostar 2500 kr, en Root er bara með tónlist á a-hlið og handgerðu listaverki á b-hlið og kostar 3000 kr. Ef þig langar að styrkja útgáfu stóru plötunnar, sem mun heita Fast, en ert ekkert sérlega að pæla í að fá þér vínilplötu geturðu keypt bara rafrænt niðurhal, eða keypt þér tónleika með Heidatrubador á vægu verði, eða keypt þér lag um þig sjálfa(n). Hver vill ekki fá lag samið um sig? Veerle er einmitt svoleiðis lag, samið um vinkonu mína frá Belgíu sem heitir Veerle. Hún er frábær og hefur komið ótrúlega oft til Íslands af því hún elskar íslenska tónlist.
Annar Belgi tengist plötunni, en belgíski læknirinn og vinur minn, Wim Van Hooste, gerir listaverkin á plötuumslaginu, fram- og afturhlið. Hann elskar líka íslenska tónlist og hefur komið oft til Íslands. Ég hlakka til að heimsækja þau bæði á næsta ári, þegar ég verð á flakki um Evrópu að spila lögin mín á kassagítar?
Annars spilaði ég fjórum sinnum á Airwaves 2016: Einkatónleika fyrir japanskan hóp á þriðjudag, í Friðarhúsinu á fimmtudag, á Bæjarins Beztu Pylsum á föstudag og í Norræna húsinu á sunnudag. Er smá þreytt, en glöð. Takk fyrir
(Please google-translate this, I am too tired at the moment to write it all in English as well.)

föstudagur, mars 11, 2016

Heidatrubador spilar tvö lög.

Ég var að gera þetta áðan. Mér leiddist, og svo langaði mig að spila á gítar og taka upp á kasettu. En ég var allt í einu bara farin að taka upp á þetta hér. Eini hlustandinn var kisi, og nú þú.

föstudagur, janúar 01, 2016

Fyrsti janúar 2016

Nýtt ár og þá er ágætt að fara yfir það sem gerðist rétt áðan (á síðasta ári). Ég er sátt við síðasta ár, því ég gerði alls kyns hluti sem ég hafði hugsað um að gera lengi en tók mér loksins tíma í. Ég bjó í Berlín í tæpa 3 mánuði, ein, og tók upp tvær plötur, eina fólkplötu og eina hljóðatónlistarplötu, líka ein.
Kláraði að fara yfir fjórða uppkast að fyrstu skáldsögu minni, sem ég hélt að væri tilbúin en er nú búin að fatta að það vantar herslumuninn, eitthvað sem ég mun klára 2016. Ég sótti um styrki, allnokkra meira að segja, og fékk 2 (takk Tónskáldasjóður 365 og Hljóðritasjóður STEF!) og ég og Curver erum að mixa eina plötu núna. Tvö fyrstu smáskífulögin komu út á 7-tommum í nóvember og desember, og sú þriðja kemur út í janúar og plata svo þegar allt er klárt. Vínilplötur eru komnar til að vera og það er ótrúlega gaman að nú skuli vera komin íslensk vínilpressa sem getur reddað málunum með frekar litlum tilkostnaði og litlum biðtíma. (takk vinyll.is). Það verða sko gerðar fleirri plötur á nýju ári.
Ég byrjaði að spila opinberlega með kassagítar, tambúrínu og munnhörpu að vopni á árinu, undir nafninu Heidatrubador, en sú stúlka kom nú reglulega fram áður en rokkið náði endanlega tökum á mér í unun, Heiðingjunum, Dys og Hellvar. Ég flutti tvo trúbadora, einn enskan og einn írskan, til Íslands um haustið 2015 og skipulagði litla tónleikaferð um suð-vestur-hornið. Það var gaman og ég vil endilega spila fleirri trúbadoragigg á nýju ári.
Við fluttum í miðbæ Reykjavíkur aftur (VÚ-HÚ!) og ég gæti ekki verið sáttari, það er einfaldlega svo miklu skemmtilegra í miðbæ Reykjavíkur, og ég nenni ekki að vera að þykjast eitthvað annað. Óliver, minn yndislegi sonur, fermdist borgaralega á árinu, það var fjör og gott að sjá hann verða stærri og öflugri og klárari og skemmtilegri (ef það er hægt) með hverjum deginum sem líður. (Takk Óliver!)
Ég vann á Rás 2 allt árið, nema þessa tæpa 3 mánuði sem ég fékk Berlínar-leyfi) og fékk að halda áfram að gera Langspil -íslenskt já takk, sem er lang-lang-lang-skemmtilegasta launaða vinna sem ég hef haft á ævinni. Bara það að vinna sem listamaður er skemmtilegra en það, en ekki eins örugg innkoma (ennþá að minnsta kosti). (Takk Rás 2 og RÚV og allar frábæri íslensku hljómsveitirnar og tónlistarmennirnir sem eru að senda mér tónlist, non fokking stopp, hvílík forréttindi að fá að grúska í þessu).
Hellvar er ein af uppáhaldshljómsveitunum mínum í heiminum og það er fáránlegt að vera meðlimur í hljómsveit sem maður er líka aðdáandi að. Elvar og ég stofnuðum hana í Berlín árið 2005, og því varð Hellvar 10 ára á árinu og auðvitað hefðum við átt að gefa út plötu en við bara náðum því ekki, því við vorum bæði að semja og taka upp annað efni líka. Í haust tókum við þetta föstum tökum og frumfluttum 4 lög á Airwaves í nóvember og síðan eru nokkur lög búin að bætast við, svo Hellvar er að nálgast nægjanlegt efni á næstu plötu. Takk elsku meðlimir Hellvar fyrir að nenna, vilja og hafa ástríðu fyrir tónlistinni okkar. (Takk Elvar minn, mesti séní sem ég þekki, fyrir að gera með mér músik)
Næsta ár, kalt mat: Meiri plötur, meiri listaverk, meiri tónleikar, meiri bókaskrif, meiri ferðalög, meiri uppgötvanir, meiri ást. Takk innilega fyrir mig og allt, kæri heimur.