Leita í þessu bloggi

fimmtudagur, desember 13, 2012

prófin búin, þeim lauk í gær...

...sem þýðir bara eitt: Ég er komin í jólafrí! Í tilefni af því leigði ég "Jingle all the way" með Arnold Schwarzenegger fyrir mig og Óliver í gær, og rosalega er hún leiðinleg maður...Aaaa, hvað það er mikið af vitlausu fólki í bíómyndum. Það er svo merkilegt að handritshöfundar haldi í alvörunni að vernjulegt fólk samsami sig með vitleysingum sem taka alltaf rangar ákvarðanir og klúðri. Ef það er eitthvað sem ég á sérstaklega erfitt með, þá eru það bíómyndir og/eða þættir sem ganga út á að fólk klúðri af því það er svo vitlaust eitthvað. Klown er og verður leiðinlegasta sjónvarpsefni sem ég hef augum litið, og það er víst mjög óalgeng skoðun hérlendis. Frekar myndi ég vilja horfa á tíu ára gamlar veðurfregnir en að vera neydd til að horfa á Klown-þátt aftur. Það er þá allavega einhver heilbrigð skynsemi í veðrinu. Prófin gengu svona la,la. Held mér hafi gengið betur á heildina en á fyrstu önninni minni í heimspeki (en þá fékk ég 4 einkunnir: 5, 6, 6, og 6,5 en það var árið 1994 og ég nýflutt í Reykjavík og farin að leigja íbúð á Fjólugötu. Einnig var mikið af námsefni á ensku með hinu mjög sérhæfða heimspeki-lingói, og ég var bara ekki að ná því nógu hratt. Leiðin lá þó hratt uppávið í einkunnum í heimspeki, því maður verður bara betri í hlutunum ef maður heldur áfram að gera þá, ekki satt? Ég gæti mjög auðveldlega verið með 5, 5,5 eða 6 í hlustunarprófinu, ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ég giskaði á fullt, en hei, ég hef afsökun. Þetta var á japönsku!!! Ritunin var rosalega erfið og ég notaði allan próftímann, (3 klst) og fór út síðust og lauk síðustu setningunni þegar yfirsetarinn stóð upp og sagði "jæja". Þarna þurfti að skrifa 2 "ritgerðir", lágmark 7 setningar hvor, og svo bara böns böns böns í viðbót. Málnotkunin var í gær og það var bara notkun á málinu eins og nafnið bendir til, en gengið út frá því að æfa einhver ákveðin málfræðiatriði. Ég átti t.d. að setja sagnir úr nútíð í þátíð, beyja lýsingarorð rétt, setja inn réttar forsetningar. Í heldina er ég nokkuð örugg með að vera ekki fallin þarna. Væri ekki hissa þótt ég fengi 6 en gæti samt hafa slefað í 7. Ritunin var held ég betri, svo ég ætla að segja að þar sé ég örugglega með 7 og kannski hærra (vonandi). Svo skilaði ég 2 ritgerðum, einni í japönskum kvikmyndum og einni í japanskri menningu og þjóðfélagi. Skrifaði um Kurosawa og Murakami. Basic. Ég kann að skrifa ritgerðir. Elska báða þessa kalla sem ég valdi að skrifa um. Þetta var bara skemmtun fyrir mér. En prófin....úffffffff. Svo gleymdi ég að taka eitthvað að drekka í fyrra prófinu, og þegar ég stóð upp eftir 3 tíma svimaði mig og ég var með hausverk: Dehydrated! það hefur ekki komið fyrir mig lengi... Í öðrum fréttum: Óliver er búinn að vera lasinn í viku, fór ekkert í skólann þessa viku, ætlum að sjá hvort hann kemst á morgun, en í sannleika sagt efa ég það. Hann er enn fullur af kvefi og hóstandi á 4 sekúndna fresti. Liggur og les Andrés og horfir á myndir til skiptis. Læknirinn gaf honum sterapillur í gær og hann tók skammtinn (12 stk.) áðan. Þetta verður eitthvað... .:

miðvikudagur, nóvember 28, 2012

léleg í japönsku, en það er bara gaman...

í dag fór ég í tvö kaflapróf og kúkaði á mig í báðum...svo lagði ég mig í klukkutíma og fór og spilaði tvö lög, eitt frumsamið og eitt neil young-lag vegna útkomu bókarinnar "Afturgangan" eftir Ágúst "Spritta" Ámundason. svo eldaði ég, og þá var orkan aftur búin og ekki hægt að læra. verð því að læra í fyrramálið milli 8 og 10 fyrir skyndipróf í hlustun á morgun. þetta er síðasta kennsluvikan í skólanum. svo er það bara próf á þriðjudag (hef helgina til að æfa mig) ritgerðaskil á sunnudag 9.12 (geri hana í vikunni) próf mánudag 10. (æfi mig næstu helgi) og próf fös. 14.12 (eða 17.12 man ekki) allavega er ég komin í jólafrí í síðasta lagi 17.12 og kannski 14.12. Ég er ennþá mjög léleg í japönsku.

mánudagur, nóvember 26, 2012

lær lær tækifær, ær ær ætiþyrstill

Mér tókst að skila ritgerð upp á 10 síður í gær, reyndar ekki fyrir miðnætti heldur var hún korter í eitt í nótt þegar ég sendi. mér tókst líka að þamba kaffi á síðustu metrunum því það hafði aftur liðið heil helgi þar sem ég tók því ekki mjög rólega og var á fullu allan tímann. Það var því um klukkan ca. hálf-þrjú í nótt þegar ég sofnaði loks, og var því fremur mygluð klukkan hálf-átta í morgun. 5 tíma svefn er fyrir ghandi og fleirri andlega meistara sem eru svo pollrólegir út af hugleiðslu að þeir hreinlega hafa fengið fulla hvíld á fimm tímum. Eða kannski bafa fulla hvíld á 3 tímum og ef þeir vilja sofa út þá 5 tímum. ég alla vega fór ekki á fætur að læra og mætti svo tilbúin með verkefnið klukkan tíu, heldur fór ég að horfa á bbc horizon þátt um taugaskemmdir á jútjúb, og sofnaði svo blíðum og værum svefni og svaf til klukkan 12.00. vaknaði við gott veður í formi -birtu og logns og er að spá í að vafra út í það. kannski vafra ég á hlemm og tek svo strætó upp í breiðholt og fer í breiðholtslaugina, (góð gufa þar), eða ég vafra alla leið í vesturbæjarlaugina (fínt eimbað þar, og frábær útiklefi). ég þarf að vera í útinu, og svo get ég tekið næsta verkefni sem ég þarf að skila og lært fyrir kaflaprófið á morgun. síðasta kennsluvikan er núna, og svo eru eftir 3 próf og ein ritgerð. ég er alveg til í frí. skólafrí í smá tíma. andpásu. handsápu. svo spila ég tvö lög á morgun í mál og menningu fyrir ágúst spritta sem er að gera sína fyrstu bók, sem heitir Afturgangan. Mál og Menning, Laugavegi, kl. 18.30.

sunnudagur, nóvember 25, 2012

ég er búin ad vera ad gera ritgerd i dag. hefdi àtt ad vinna meira í gær en thá fékk ég jólahreingerningaálfana í heimsókn og vid gerdum ægilega fínt í eskihlídinni. svo nú er fínt og thad er gaman en ég hef 4 tíma til ad klàra.kaffióverdós hér kem ég!!!

föstudagur, nóvember 23, 2012

ég breytti blogginu, var búin að fá leið á hinu útlitinu. fann kasettutækismynd, og er einmitt að fara að raða kasettunum mínum og klára að raða vínilplötunum. held ég geri það í fyrramálið og geri svo ritgerð það sem eftir er dags/kvölds. í kvöld ætla ég að vera heima og horfa á mynd með óliver. hann kom með fimm myndir til að velja úr og ég valdi rush hour 3, með jackie chan og chris tucker. kannski verður farið í kolaportið á morgun, og kannski keyptur ís líka, hver veit? í kvöld eru það rólegheit. það væri nú gaman ef fleirri heimsæktu okkur í eskihlíð 33a, því við erum soldið einmanna hér í "úthverfinu". það er nú ekki nema korters-labb úr miðbænum, en samt er þetta auðvitað ekki eins miðsvæðis og bergstaðastræti. við þurfum samt að fá fleirra fólk í heimsókn. kaffi alltaf til hér, og margar vínilplötur í hillunum. svo er óliver hressastur í heimi og elvar kann nokkur töfrabrögð sem hann getur sýnt ef hann er spurður fallega....bæ, heiða

þriðjudagur, september 25, 2012

Ég hef hoppað á tæknilestina af miklu öryggi og á nú bæði smartphone og instagramsíðu. Hingað til hef ég aðallega tekið myndir af kettinum mínum, og er það að svara ákveðinni þörf sem ég fann fyrir á netinu. Það þarf einhver að taka að sér að taka myndir af köttum.

föstudagur, september 14, 2012

Hvað er að tarna?

Hvað er að tarna? Svör óskast í kommentakerfi. Annars er ég lifandi og sparkandi og að læra Hiragana á fullu. Gengur vel, og þá er bara strax byrjað á Katakana (eða byrjar í næstu viku). Ég ræð við'þetta en er bara á brúninni, þ.e.a.s. það mætti ekki vera meira vinnuálag í neinu til að ég snappaði og byrjaði að tala tungum sem ég hvorki kann né er að læra. Mig er búið að dreyma á japönsku og dreyma líka japönsk tákn, og svo vakna ég og þá er mig að dreyma að ég er að reyna að muna eitthvað hiragana-tákn. Semsagt heilabú mitt er gegnsósa af japönsku. Nú er ég á leið í 2. tímann í japönskum kvikmyndum og þá höldum við áfram að horfa á seven samurai eftir Kurosawa. Gott stöff og stendur fullkomlega uppi í hárinu á víkingamyndum íslendinga. Það mætti segja að Kurosawa sé Hrafn Gunnlaugsson Japana (eða kannski frekar öfugt...). Talandi um víkinga: Þegar ég var lítil þá man ég eftir því að hafa verið að pæla í setningunni "Nú er hún Snorrabúð stekkur". Er verið að segja að núna sé Snorrabúð orðin stekkur (hvað er stekkur?) eða vantar kommu í þessa setningu: Nú, er hún Snorrabúð stekkur,...Allar upplýsingar vel þegnar. Bæ!

sunnudagur, ágúst 26, 2012

Crazy

Ég hef nú skifað mína fyrstu veitingahúsagagnrýni og mína fyrstu kvikmyndagagnrýni. það var ekki svo mjög erfitt að dæma bíómynd, en kom á óvart hversu erfitt er að tjá sig um fjölbreytileika eldamennsku, fyrir utan það hvað það var erfitt að mæta svangur á veitingastað og þurfa að hafa pláss fyrir marga rétti, og skilja því eftir. Þetta hlýtur þó að lærast, og ég með minn litla maga þarf að hreinlega að narta bara í forrétti til að hafa pláss fyrir það sem á eftir kemur. Ég gæti ímyndað mér að það væri léttara að dæma vondan mat því þá er ekkert mál að skilja eftir, en að skilja eftir dýrindis kræsingar er kvöl og pína. Sú pína er þó skömminni skárri en magapínan sem fylgdi mér fram á næsta dag því ég gat ekkert skilið eftir á diskunum. Ég á enn eftir að dæma leiksýningu, myndlistarsýningu og bók, en geisladiska, plötur og tónleika hef ég oft dæmt áður. Það er gaman að vera að vinna í menningarblaði, þar sem efnið er menning líðandi stundar í víðustu merkingu þess orðs. Ég á þó mikið eftir til að ná að vera sátt og klára vel, en ég þarf að skila af mér "Miðborginni" á miðvikudag og fyrsta tölublað kemur út á föstudaginn 31.ágúst.

þriðjudagur, ágúst 21, 2012

Jæja nú er ég að taka 11 (ELLEFU!) virk efni sem eiga að hjálpa slíminu að fara og slá á bronkítis, asma og flensueinkenni. Ég keypti jurtablöndu í duftformi sem heitir Mímir, og í henni er: Sólhattur(Echinacea angustifolia), Engifer (Zingiber off.) Piparmynta (Mentha piperita), Cayenne pipar (Capsicum min.) Valhumall (Achillea millefolium) og Hvítlaukur (Allium sativum). Duft í heitt vatn, tastes like shit.... Svo keypti ég poka af jurtablöndunni Læðingur, og úr honum er gert seiði, 1 lítri fyrir hvern dag. Í Læðingi er: Hálsurt (Inula helenium), Lakkrísrót (Glycyrrhiza glab a -vantar einn staf þarna...?)Hvannarót (Angelica rad.) og Síberískt gingseng (Eleutherococcus senticosus). Gott tebragð með lakkrískeim. Svo tek ég 15 dropa af oregano-olíu út í matskeið af ólífuolíu, mjaaaa, ekkert það vont, soldið skrýtið að gleypa olíu úr skeið. sleppur samt. Þetta allt á ég að gera 3svar á dag, þar til ég lagast. Eins var mér ráðlagt að sleppa algerlega sykri og mjólkurvörum þar til þetta lagast. sykur, ekkert mál, er núþegar laus við það. mjólk, jógúrt, skyr, ekkert mál. smjör á brauð og ostar.............oooooooooooo, ég sem var að kaupa camenbert og fetaost....en ég get nú alveg borðað bara ost í dag, (klárað allt sem er til í ískápnum) og svo ekki söguna meir. jájá, mjólkurvörur veikja ónæmiskerfið og halda slíminu í líkamanum. staðreynd. sykur er bara vondur, punktur. hjálpar ekki til að vera að láta líkamann vinna á að brjóta hann niður og hreinsa út úr systeminu, þegar það er eitthvað annað sem ætti að vera að einbeita sér að. farin upp í sófa að lesa, og borða ost.

sunnudagur, ágúst 12, 2012

happy for my activity but unhappy for my lack of documentation

Dear diary! I swear I am doing lots and lots of things. so many that I keep forgetting to write them down. I can be happy for my activity but unhappy for my lack of documentation thereof. So yesterday we went to Laugarvatn to go to the spa, and we used the natural sauna and jump into the lake Laugarvatn in between. Hot-cold-hot-cold-hot! And I liked it a lot. I could make that into a chorus in a song: Hot-cold-hot-cold-hot And I like it a lot! Actually, it sounds like it could be a Rolling Stones-song. Anyway, I went to sleep early, 11-ish, and woke up the first of everyone, 9-ish (yes, it is early for a sunday) and decided to go out for a walk. So I did, and walked through the small forest, and then I went to have lobby-coffee in Hotel Edda, and wrote for an hour or so. Came back and tasted some israeli-breakfast-eggs that our friend Carmith made for us. We hung out and then went swimming (more sauna). Drove to Selfoss and visited the cool café there, and drove to Reykjavik and bought pizza at Eldsmiðjan for dinner. I am busy doing nothing with the cat right now, thinking of retiring with a book and a jug of tea pretty soon. It is fun to be chillin' at home after a bit of a visit to the countryside. I was thinking of watching a movie, but now I only feel like reading. Books are the best. Love, Heida P.S. I have bronchitis again and I think there is some fungus in the house we live in...not great. Maybe we can move....we would like to live in 101 Reykjavík, though. Dear world and destiny, send us a cheap apartment near to here, sometime in the near future. When you have the time, no rush... Heida again.

föstudagur, júlí 27, 2012

Hellvar "Nowhere" Video from wimvanhooste on Vimeo.

Nýtt myndband frá Wim Van Hooste við lagið Nowhere, með Hellvar, í akústískri útgáfu. Góða lund, góða lunda!

laugardagur, júlí 07, 2012

mér er illt í maganum svo ég ákvað að fá mér fennel-te til að róa magann. svo lá ég í leti með tebollann á bumbunni að fá mér einn og einn sopa, búin að vera að dreypa á teinu í þónokkurn tíma, svo hitastigið var við kjöraðstæður, ekki of heitt og ekki of kalt. þá fékk ég hóstakast og sullaði úr magateinu yfir magann á mér. við það fór magaverkurinn. hef ég verið að misskilja teneyslu mína eitthvað í gegn um árin? er það útvortis???

föstudagur, júlí 06, 2012

Ég fór í alls kyns búðir í gær með Óliver. Við vorum að rápa um í miðbæjar-mallinu (kringlan), ef til vill örlítið lituð af bíómyndinni sem við horfðum á kvöldið áður (Mallrats). Við röltum um og hálfpartinn vonuðumst til að sjá parkour- og hjólabrettakrakka hoppandi upp um alla veggi, en í stað þess voru bara venjulegir Íslendingar á frum-, mið- og efsta stigi, small, medium og large. Við komum við í Hagkaupum og keyptum ofurplómur, eitt kíló, og rándýra ostaflís líka, og fórum í Tiger eftir uppþvottasvömpum. Keyptum pizzusneiðar í Sbarro sem samkvæmt þessari wiki-færslu opnaði sinn fyrsta verslunarmiðstöðvarveitingastað (langt orð)árið 1970, í Brooklyn. Þetta eru góðar og ódýrar pizzur, en Sbarro hafa víst verið í einhverjum fjárkröggum (sjá aftur Wiki-færsluna), svo ég mæli með því að allir fái sér mat þar, til að passa að þessi duglegu Ítalir sem komu til Ameríku 1956 haldist á réttu róli. Í öðrum ókeypis auglýsingum á sætum stöðum í Reykjavík sem er gaman að fara og sjá, má benda á splunkunýja búð á Laugaveginum sem heitir Suomi PRKL og sérhæfir sig í finnskum vörum. Ég keypti bláberjasjampó og múmínálfatannkrem þar, en það var bara af því ég átti ekki mikinn pening til að eyða. Mig langar í svo margt og hér er hægt að sjá heimasíðuna þeirra: http://www.suomi.is/ Það er skýjað í Reykjavík í dag, en falleg flóra af litríku fólki sem mælir göturnar.

fimmtudagur, júlí 05, 2012

Fékk mér tvöfaldan soja-latté á Kaffifélaginu á skólavörðustíg í morgun, og ég held það hafi gefið mér aukakraft sem aldregi fyrr.Eins og heimasíðan þeirra segir er þetta "minnsti kaffibar á landinu og þótt víðar væri leitað" og það er svolítið gaman. Þú kemur, drekkur koffínið þitt (þú þarna skoffínið þitt!) og svo ferðu eitthvert annað. Í mínu tilviki á annað kaffihús sem er með tölvusamband, svo ég geti hangið á netinu og unnið. Eymundson, Skólavörðustíg er best í því tilviki því það eru stórir gluggar, hratt net, og alls kyns yndislegir drykkir (ég fékk mér íste, því ég var með nægt koffín í mér). Svo er mikið af börnum og útlendingum og engin tónlist. Kjöraðstæður til skrifta, semsagt. Mikið er Reykjavík falleg í dag, og ég er ekki með hita, held ég. Ef ég er með hita er hann lægri en undanfarna daga, og ég er líka byrjuð á sýklalyfjameðferð nr.2, eftir að uppgötvaðist að ég er með bronnkítis. Bronnkítis, bronnkotans, bronnfull!

þriðjudagur, júlí 03, 2012

gæludýramenn

kisinn minn liggur á sænginni minni og sleikir á sér feldinn. þar á undan var hann sofandi og eftir að hann er búinn að sleikja á sér feldinn leggur hann sig örugglega aftur. það er ótrúlega merkilegt að til séu dýr í heiminum hverra hlutverk er að vera sæt fyrir aðra dýrategund. Hvað ef við mannfólkið værum slík dýrategund fyrir einhver önnur dýr? Hugsanlega eitthvað dýr sem er klárara en maðurinn og líka aðeins stærra (til þess að þeim finnist við lítil og krúttuð). Svoleiðis dýr er ekki til á þeirri plánetu sem við þekkjum en auðvitað er það bara tímaspursmál þar til við fáum sannanir á lífi annarra tegunda á öðrum hnöttum. Það eru svo stjarnfræðilega litlar líkur á því að við séum einu lifandi verurnar í heiminum að það er eiginlega fáránlegt að við höfum ekki enn hitt aðrar. Mér finnst heimurinn eins og bíómyndirnar Men in Black lýsa honum, vera mjög sennilegur, og held að hann verði svoleiðis bráðum. Ég væri alveg til í að vera gæludýr fyrir stærra dýr eins og kötturinn er gæludýr hjá manninum. Á meðan ég væri ekki í ánauð, og þyrfti bara að vera sæt og skemmtileg og krúttuð, þá væri ég til í það. Ef kettir virkilega vilja eitthvað þá fá þeir það. Eins og kötturinn okkar sem bara ásetti sér að vera úti í nótt, þrátt fyrir að vera frekar mikið inniköttur og líka hreint ágætlega við það. Hann er ekki hrifinn af öðrum köttum, frekar smeykur við þá, svo félagsskapur manna hentar honum því ágætlega. En seint í gærkvöld stökk hann út, um leið og hurð opnaðist, og hvarf. Köll á hann skömmu síðar báru engan árangur. Hann kom inn í morgunn og liggur nú og sefur, eftir að hafa sleikt allan feldinn sinn. Hann er rosalega mikið krútt.

mánudagur, júlí 02, 2012

kast hóstakastsins

kæra dagbók! dagur 19 í hósta er runninn upp, þetta virðist ekki vera að enda. sumarið 2012 hefur svo sannarlega verið furðulegt. ég þarf samt eiginlega að fara af stað að búa til blað svo ég hósta þá bara í gegn um það. samt er ég furðu máttlaus eitthvað... Það fyrsta sem er á dagskrá þegar hóstaköstin yfirgefa mig eru hjólreiðar og að hlaupa. Ég stóð sjálfa mig að því að öfunda ókunnuga manneskju sem ég sá vera að hlaupa niðri í bæ, bara af því ég get það ekki þá er það spennandi. Samkvæmt þessum röksendum ætti ég líka að öfundast út í fugla, því hei, ekki get ég flogið...en ég get borðað orma og verið eins og þeir þannig. kasta ég nú hóstanum fyrir róða og fer út að hjóla. ég fæ þá bara hósta, svona fyrsta kastið...

miðvikudagur, júní 27, 2012

Ég sofnaði klukkan 01.00 í gær en vaknaði samt ekki fyrr en klukkan 14.00 eftir hádegi í dag!!! 13 tíma svefn er rosalega mikið, en kannski var ég bara svona búin á því. Í dag er 14 dagur í hóstaköstum og ég tók nokkur hressileg eftir að hafa legið út af svona lengi. Reyndar var eitt svo mikið að ég lá í keng á eldhúsgólfinu og út úr mér lak glært slím. Hringdi strax í Elvar sem sagði mér að hringja og fá símatíma hjá heimilislækni. Svoleiðis er uppbókað út vikuna en þau lofuðu mér að það myndi hringja í mig hjúkrunarfræðingur, sem auðvitað hringdi svo aldrei. Nú er klukkan 7 (19) þannig að á þeim 5 tímum sem ég hef verið vakandi er ég búin að: Fá mér morgunmat, lesa blað, svara tölvupósti, millifæra á Elvar svo hann geti náð í rafmagnsgítarinn minn úr viðgerð, skrifa upp viðtal og lagfæra, fá mér te og hnetur, spila tölvuleik, setja í þvottavél og þurrkara, borða pizzu sem Elvar eldaði, og nú er ég að fara að læra smá í þýsku í hálftíma eða svo (les Erläuterungen zu Hölderlins Dichtung með hjálp orðabókar) og byrja svo að horfa á Body Double sem er triller frá 1984. Svo kannski les ég smá og/eða horfi á aðra bíómynd. Í gær horfði ég á alla 10 seríu í Friends, en reyndar gerði ég auðvitað margt annað líka Meðfram þessu öllu saman hósta ég reglulega. Ég er hins vegar ekki að hjóla eða labba eða hlaupa úti, eða liggja í sólbaði, eða yfirhöfuð að njóta sumarsins, nema þá að njóta þess sem hægt er að gera inni. Ég væri vissulega ekki að læra þýsku eða japönsku eða að horfa á spennandi myndir undir venjulegum kringumstæðum. Skrýtið líf, verulega skrýtið.

mánudagur, júní 25, 2012

Tók aðeins til í útliti á þessu bloggi, mig var farið að langa í breytingu. Man hins vegar ekki lengur hvernig ég fékk þennan fjólubláa borða til að birtast efst, og ég væri gjarna til í að hafa hann rauðan eða svartan akkúrat núna. Það væri því vel þegið ef einhver áttar sig á því hvað þessi partur af leiátinu heitir, að koma leiðbeiningum um breytingar til skila hér í athugasemdum. Ég þarf að fara að blogga á hverjum degi aftur, það er svo miklu gáfulegra að segja eitthvað mis-gáfulegt hér en eitthvað mis-gáfulegt á facebook. Nú er ég aftur á uppleið heilsufarslega séð, og ekki seinna vænna því það bíða margvísleg og fjölbreytt verkefni eftir mér. Ég ætla að skrifa svolítið, og æfa með Hellvar og æfa Bítlalög á gítarinn fyrir Bítlakoverbandið sem ég er í, og svo ætla ég að halda áfram að æfa mig í japönsku því ég ætla í japanskt mál og menningu í Háskóla Íslands í haust. Ég tek það fram að ég er algjör byrjandi í tungumálinu en hef einhvern veginn engar áhyggjur af öðru en þetta verði bæði gaman og ekkert svo erfitt. Ekki of erfitt, að minnsta kosti. Ég er á degi tólf í veikindum og hósta, og þrái að komast í hjólaferð og í ræktina og í göngutúr og að sjá miðnætursól, en ég hef, að mig minnir aldrei orðið alvarlega veik á þessum tíma ársins áður. Sem betur fer styttist dagurinn alls ekki hratt þótt hann sé farinn að styttast og ég get huggað mig við að miðnætursólin er enn þarna. Hóstinn er það reyndar líka, svo nú er bara kapphlaup, hvort vinnur hóstinn eða miðnætursólin? Ég kem allavega örugglega heil í mark, hvenær sem það verður nú.

þriðjudagur, júní 05, 2012

Missti af gærdeginum út af pollen-ofnæmi. Eða réttara sagt, tók fyrri part dagsins með trompi og fór svo og krassaði heima. Við áttum ýmiss erindi út um allan bæ: Fara í LÍN, fara upp á Háskólatorg, koma við í æfingarhúsnæðinu, og því vorum við akandi. Já, afskaplega notarleg ökuferð í blíðunni með góða tónlist og rúðurnar skrúfaðar niður, þar til: BAMM. Ég finn bara hvernig birkipollen og/eða nýslegið gras ræðst á mig með andrúmsloftinu sem skall á andliti mínu. Ég var víst eitthvað að teygja hausinn út um hálfopinn gluggann, svo ég get kennt sjálfri mér um. Þarna fór að halla undan fæti og um klukkutíma síðar var ég orðin að slefandi hundi með blautt nef. Ég harkaði nú samt af mér og fór á kaffihús og svona, en kom við í Jurtaapóteki á leið heim og keypti 2 galdrajurtate, annað til innvortis og hitt til útvortis notkunar. Ég brugga seið úr Augnfró (Euphraisia officinalis) og skola augun upp úr því. Svo er hinn seiðurinn gerður úr Urtica dioica, eða Brenninetlu, og á honum er ég að dreypa. Nú eru allir gluggar lokaðir, og ég búin að vera að éta omega 3 fitusýrur og lauk og hvítlauk í öll mál. Það sagði internetið að minnsta kosti að myndi hjálpa. Mig langar út í "veðrið" en það er ekkert svo gott. Ef ég skelli mér í smá bæjarferð á eftir verð ég með blæju fyrir andlitinu.

sunnudagur, júní 03, 2012

Well, what do you know? A new blog-entry, and in English, for a reason I am unable to tell you... I woke up with English in my head, was speaking English to somebody in my dream. The dream was taking place in Selfoss where there was a conference in the hotel there, and I was taking part in it. All the "hnakki" (a hnakki is somebody with tribal-tattoos, sprey-tan, listening to euro-techno music, and liking muscles and cars) and the "skinka" (a female version of hnakki) were meeting in Hotel Selfoss, to talk about the newest developement in techno music, comparing protein-drinks, and attending lectures on the best tecnique to get an even spray-tan. I have no idea why I was there, not being a skinka, but apparently when I woke up I was trying to get directions from someone in the lobby as to where I would find a pierchin-shop in Selfoss. I was getting pierched. Some dj-s were playing Icelandic pop music from the 80's and 90's in god awful techno-versions. I remember hearing "Vertu ekki að plata mig" and the famous unun-hit "Lög unga fólsins" in the most horrendous techno-versions. It was a strange dream.

miðvikudagur, maí 30, 2012

Ég hef nú ekki sitið flötum beinum frekar en venjulega þótt bloggið hafi verið í lágmarki. Loks virðist hitastigið vera að ná sér eitthvað á strik og ég því búin að hjóla eitthvað daglega í viku eða svo. Hjólið mitt fór í yfirhalningu og er nú í toppástandi. Ég reddaði miða á Bryan Ferry á mánudag (vá hvað það var óóóóóóóóóóóóóóóóóótrúlega gott gigg), ég er búin að mæta í ræktina og í sund og gufu nokkrum sinnum. Vinir koma í heimsókn, við förum í heimsókn til þeirra. Ætla að fara á sýningu í Hveragerði á morgun í listasafni árnesinga og skella mér e.t.v. í sund og gufu þar. Fór á langa bítlaæfingu á mánudag sem var haldin úti í porti, sat í sólinni í 3 tíma og varð brún í framan. óliver leikur sér úti frá morgni til kvölds, ég þurfti að tæla hann inn með hamborgara klukkan átta í gærkvöld. við eigum eftir að sjá Men in Black 3, en við förum örugglega á föstudag, eða kannski annað kvöld ef við getum ekki beðið. ætla að skella mér í hot yoga núna í hádeginu, og hér er uppáhaldslagið mitt af sólóferli bryan ferry:

föstudagur, maí 18, 2012

miðvikudagur, maí 02, 2012

Ég er stödd á bókasafninu í Hveragerði núna, og auðvitað nota ég tækifærið og kíki í tölvu, skoða póst, blogg og facebook. Ég er að fara frá Hveragerði á morgun, en er búin að vera með hléum síðan 24.mai. Ég og Gunni gerðum barnalög, svo kom Elvar og við unnum saman rokk. Svo kom Gunni aftur og við gerðum meiri barnalög og texta, og afrekuðum það líka að labba inn Reykjadali, þar sem heiti lækurinn er. (ég óð upp að lærum, en á það eftir að baða mig almennilega þarna...) Heiti lækurinn fær fullt hús stiga og mér finnst alveg óskiljanlegt að ég hafi aldrei farið þarna fyrr!!! Svo var ég skilin ein eftir í gær, þriðjudag 1.mai, og fannst mér það afar ljúft. Ég vann smá í gærkvöldi, útsetti eitt lag, breytti öðru, en datt svo úr stuði og skellti mér í bíó til Selfoss. Sá Svartur á leik og veit ekki alveg hvað mér finnst um hana. Vondi maðurinn í henni er svo hrikalega illur að ég átti smá erfitt með að muna að þetta var bara bíómynd. Ég hefði viljað hafa hendi til að kreista á tímabili... Myndin fjallar náttúrulega um spíttfíkla sem löngu eru búnir að missa öll blæbrigði og fínstillingar tilfinninga sinna. Það er bara spítt og ríðingar þar til maður krassar... Svo kom ég út og var á Selfossi og fór að ímynda mér að önnur hver bygging væri amfetamínverksmiðja og ljótir kallar leyndust bak við hvert horn. En ég kom aftur "heim" í Varmahlíðarhús í Hveragerði og þar var hlýtt og notarlegt, og ég spilaði Bítlalög á gítarinn minn og fékk mér te, og las bók þar til ég sofnaði. Svartur á leik státar þó af góðri og vel valinni tónlist og ég rak augun í það í kredidlistanum að Árni Sveins á heiðurinn af því vali. Mér fannst tónlistin koma tímabilinu sem myndin gerist á vel til skila og bæta einhverju "auka" við myndina, sem mér finnst einmitt að tónlist í bíómyndum eigi að gera. En ég er í pásu hér í tölvunni á bókó, frá því að semja flott rokklag. Það er alveg að verða tilbúið. Svo ætla ég að skeyta gömlum kafla sem var ekki notaður í gömlu lagi saman við lagið sem ég og Elvar gerðum um helgina, og kannski semja nýjan söng við. Ég er semsagt að nota tímann vel þennan síðasta dag, enda er frábært næði í þessu húsi og allt til alls. Ég ætla í Bónus að kaupa í kvöldmatinn á eftir og svo bara vinnvinnvinn, en muna að skella sér í sund og gufu áður en lokar í kvöld. Hveragerði gerði mér gott!

miðvikudagur, apríl 18, 2012

Góðan dag kæru vinir. Ég er ágætlega vöknuð, enda fór ég á fætur og ákvað að hjóla með Óliver í skólann í dag. Veðrið sem ég sá út um gluggann minn leit út fyrir að vera stjarnfræðilega gott, stillt og sólin skein. Er út var komið varð mér hins vegar gífurlega kalt, því hitastigið er enn stillt á vetur. Það ætti þó að breytast á morgunn, sumardaginn fyrsta, ekki satt? En nú sit ég heima undir tveimur teppum og kalt á tánum, og sýp á soldið vondu kaffi sem ég hellti mér sjálf uppá. Aðalkaffiuppáhellarinn er Elvar og því er ég ekki í æfingu. Hans kaffi er alltaf gott, hann er með náðargáfu. Mitt kaffi er stundum ekki vont, og það þarf ekki neinar gáfur, náðar- né annars konar, til að átta sig á því hver á þá að laga kaffi á þessu heimili. Annars vildi ég óska að einhver kæmi og lagaði þetta kaffi, því það er alls ekki boðlegt, og sýp ég þó áfram. Ég er að reyna að hlýja mér á tánum, skiljiði. Það væri ef til vill bara happadrjúgast að dýfa tánum ofaní kaffikönnuna í stað þess að fara innvortis-leiðina, en ég þrjóskast við. Í dag ætla ég að lesa meira í Beyond Sushi, Japanskri ferðabók sem ég tók á bókasafninu, gera einn þátt í útvarpsþáttaseríunni minni, "Heidi goes to town", baka nýtt brauð, fara með 3 svarta poka af fötum í Hjálpræðisherinn, og mæta svo á opnun Lista án landamæra í Ráðhúsinu klukkan 17.30. Þetta verður allt gaman, ég veit það.

fimmtudagur, apríl 05, 2012

Nú hef ég tekið upp annan þátt í seríunni "Heidi goes to town" og í þetta sinn er hann á ensku. Ég spila instrúmental lög með flytjendum sem eru kannski þekktastir fyrir sungin lög. Þarna kennir ýmissa grasa, en lögin eru öll frá áttunda og níunda áratugnum. Tæpar fjörutíu mínútur af heimaútvarpi, tekið upp í stofunni í dag. Gleðilegan Paska!


http://www.spreaker.com/user/heidahellvar/the_instrumental_songs

fimmtudagur, mars 29, 2012

http://soundcloud.com/heidatrubador/the-heida-hellvar-show-lag-n
Það er kominn þáttur! Fyrsti þátturinn í seríunni "Heiða fer í bæinn" (Heidi goes to town) er kominn í loftið. Í þessum fyrsta þætti spila ég lög númer 4 á nokkrum skemmtilegum vínilplötum. Þátturinn var alfarið tekinn upp í stofunni heima, með einn mæk, einn plötuspilara og einn kött við höndina. Næsti þáttur verður að viku liðinni og mun hann að öllum líkindum verða á ensku.

þriðjudagur, mars 27, 2012

Ég er að deyja úr þörf fyrir að vinna á einhverjum miðli og miðla einhverju um tónlist. Helst af öllu vildi ég vera með útvarpsþátt. Þangað til það gerist, verður að veruleika, er ég að hugsa um að reyna að gera útvarpsþætti á netinu. Ég hef ekki hugmynd um hvernig það virkar nákvæmlega en ég ætla að reyna. Á morgun tek ég upp minn fyrsta þátt, og ætla að nota til þess upptökuforritið q-base, og taka upp í einu rennsli, semsagt í rauntíma (semsagt ekki taka upp kynningar og setja inn tónlist eftirá). Þetta verður því eins og læf útvarp þar sem allt getur gerst. Ég er að spá í að spila bara tónlist af vínilplötum, allavega í þessum fyrsta þætti, sjá hvernig það kemur út. Ef allt gengur upp birtist svo linkur hér á þessu bloggi á þáttinn. Ég bara verð að gera þetta, ég get ekki ekki verið með útvarpsþátt lengur. Það er svo ömurlegt að vera ekki með útvarpsþátt. Það er eiginlega eitt það ömurlegasta í lífi mínu, og kannski bara það eina...
Líf mitt er greinilega frekar gott, ef það eina sem er að angra mig er að ég er ekki með útvarpsþátt....
Nú bretti ég upp ermarnar.

föstudagur, mars 09, 2012

Please go here: http://www.gogoyoko.com/album/Stop_That_Noise
Listen to the song You say I know by my band Hellvar for free!
Then go here: http://www.ruv.is/topp30
Tick the box on the right side of the page, and scroll to the bottom, until you see an orange box.The orange box says "Hver er summan af" meaning "what is the outcome of" and then there are tvo numbers you have to add up. einn is 1, tveir is 2, þrír is 3, fjórir is 4, fimm is 5, sex is 6, sjö is 7, átta is 8, níu is 9. Add the two up, improve your mathematical and icelandic skills, and help hellvar out to get the song more airplay. Do this once a day!
Thank you and have a nice weekend!

fimmtudagur, mars 08, 2012

kæri heimur. ég sofnaði snemma og vaknaði snemma og eyddi deginum í endalaust gáfulega hluti, og nú klukkan átta að kvöldi líður mér eins og ég hafi lifað tvo daga í einum. tveir fyrir einn-tilboð á fimmtudögum: fáðu tvo fimmtudaga fyrir einn, ef þú nýtir tímann vel. er þetta ekki bara svona ,,morgunstund gefur gull í mund"-moment?

laugardagur, mars 03, 2012

Í dag skal ferðinni heitið niður í bæ. Ég sver'ða að ég sé eitthvað gult og heitt í einhverju bláu út um gluggann minn. Nú bíð ég eftir kaffigesti, sem er á leiðinni hingað í kaffi, (ótrúleg tilviljun að kaffigesturinn sé á leiðinni í kaffi) og svo verður rölt, með viðkomu í kolaporti og kaffihúsi og kannski fornbókaverslun og ég skal ekki segja hverju fleiru. það besta við laugardaga er að þeir eru ekki virkir dagar, en heldur ekki sunnudagar þegar það kemur mánudagur daginn eftir. einu sinni fundust mér sunnudagar skemmtilegastir, en í dag finnast mér laugardagar laaaaaaaaaaangbestir. ég er búin að lesa blöðin, búin að tékka á póstinum, búin að borða hafragraut með rúsínum og bönönum, búin að klappa kettinum. nenni ekki alveg að lesa murakami strax, ætla að treina mér síðustu 300 blaðsíðurnar aðeins.

F.mö og pa:

sólin úti smýgur inn,
setur á mig bros
Um bæinn rós með rauða kinn
rýkur eins og gos!

fimmtudagur, mars 01, 2012

ég er með pung...

sunnudagur, febrúar 26, 2012

sólin úti smýgur inn,
setur á mig bros
...
seinnipart?

miðvikudagur, febrúar 22, 2012

Ég er jarðarber, en tölvan mín er ekki með blátönn svo ég get ekki sett inn mynd. óliver er einhver '80 gaur, lítur mest út eins og '80 raftónlistarmaður, með svart hrokkið hár, stór headphone, sjálflýsandi gleraugu, í '80 leðurjakka, pink floyd-the wall-bol og svörtum þröngum gallabuxum. mega-töff! ég er minna töff, enda þurfa jarðarber ekki að vera töff, bara góð!

þriðjudagur, febrúar 21, 2012

Ég gerði bollur úr spelti, með spelthveiti sem rann út seint á síðasta ári og vínsteinslyftidufti sem rann út um vorið 2010. Þær voru ,,áhugaverðar" í útliti en brögðuðust mjög vel. Óliver hámaði þær í sig með sultu, rjóma og bráðnu green&blacks 70%. Ég held ég ætti að prufa þessa uppskrift aftur með óútrunnu stöffi. 41 árs og geri bollur í fyrsta sinn... en með masterspróf í heimspeki. Svona er maður misþroska.

fimmtudagur, febrúar 16, 2012

Jæja draumaráðningaherrar mínir og frúr þarna úti, hér er afrakstur næturinnar: Ég var stödd í einhverjum heimi sem ekki er til í alvörunni, en mér fannst vera framtíðarheimur, og var þar að reyna að koma grænmeti sem ég hafði ræktað í verð. Ég var semsagt með rabbarbara og gúrkur sem ég hafði ræktað og hljóp á milli sjálfsala sem líka voru greiðsluvélar. Þú gast keypt grænmeti þar, en líka lagt inn grænmeti og fengið seðla borgaða undir eins. Ég hafði vafið grænmetinu í klút og haft inná mér, og það var mikið hættuspil að komast á milli þessara sjálfsala, því allir voru að reyna að ræna mig til að selja grænmetið mitt sjálfir. Ég þurfti að hlaupa yfir bersvæði, laus við gróður og liti, og það var þoka og kalt og ég var illa klædd. Ég fann fyrir návist þeirra sem voru að fylgjast með þeim sem voru á ferli en einhverra hluta vegna fékk ég að fara í friði, líklega ekki litið út fyrir að vera með söluvænt grænmeti innan klæða. Ekki tók betra við þegar ég hafði loks náð að finna sjálfsala sem var ekki annað hvort fullur af grænmeti eða tómur af seðlum. Ég fékk borgað og það mjög ríkulega, í fimmþúsundkallabúntum sem ég vafði í klútinn minn og setti í umslag sem var vatnshelt og setti aftur inn á mig. Þá átti ég eftir að hlaupa yfir mörg bersvæði til að komast með peningana mína í öruggt skjól. Áður en ég lagði í hættuförina taldi ég samt hvað ég átti mikið og mér taldist til að ég væri með rúmar þrjár milljónir í 5þúsund-köllum (!). Ég var glöð að eiga þennan pening, en jafnframt skíthrædd um að verða rænd og vaknaði með dúndrandi hjartslátt. Ætti ég að vera í sambandi við félag ylræktarbænda og stjórnvöld og benda þeim á fordæmi slíkra framtíðardraum úr Biblíunni? Eða er það að dreyma peninga kannski fyrir skít?

sunnudagur, febrúar 12, 2012

súfistinn og kaffihúsalíf mitt hefur heldur betur tekið jákvæðan kipp þegar ég þarf að fara þangað til að tékka á netinu. það er ekkert slæmt við það. hjólaði á auðum götum. hjólið mitt er fallegt, gott og afar viljugt til hjólatúra eftir svo langa inniveru vegna veðurs. ég lét víst ekkert verða af því að kaupa vetrardekk, og nú virðist ekki þörf fyrir það. það bara bíður betri tíma. hjólaferðir, here I come.

laugardagur, febrúar 11, 2012

Netið farið úr húsinu og því þarf ég að fara á kaffihús núna til að tjá mig hér eða annars staðar á netinu. Það er reyndar afar og afskaplega hollt að vera sjónvarps- og netlaus og hún fade-ar eiginlega strax út, sú mikla "þörf" sem maður telur sig hafa fyrir að hanga á netinu og gera eitthvað stupid. Ég er sátt við að hanga bara heima og gera eitthvað allt annað: Gera krossgátu, lesa bók, horfa á friends með elvari, fara í löng böð, elda góðan mat, spila á gítar, hlusta á vínilplötur, hlusta á rás 1 í eldhúsinu. Listinn er endalaust langur. Í dag fórum við á legókubbasýningu í ráðhúsinu með Beggu og Funa og svo á Prikið að fá okkur snarl og fara á netið. Það er orðið ágætt. Þeir eru að spila soft '70. Ég þarf að hreyfa mig aðeins meira úti. Ætla að stinga upp á nálægum róluvelli. Óliver verður áreiðanlega glaður með þá uppástungu. Júró í kvöld, heima hjá vinum, með vinum. Vinir eru góðir og mikilvægir.

mánudagur, febrúar 06, 2012

ég er á leiðinni út. veit ekki hvert, en þarf súrefni. súrefni sem vekur mig aðeins. grautur og kaffi og súrefni og ég ætti að hafa smá orku. annars er daginn nú tekinn að lengja og sem dæmi þá var ég á leiðinni frá keflavík til reykjavíkur á laugardagseftirmiðdag/snemmkvölds um tæplega hálfsex, og það var ennþá bjart! það dimmdi hins vegar hratt milli hálfsex og sex og var orðið fulldimmt áður en myndin sem ég fór á í bíó byrjaði (eldfjall, mjög góð, en líklega ekki það sem kalla má feelgood...). Hins vegar er mikið feelgood í því að taka eftir birtutíma lengjast, því ég er nú bara þeim ókostum búin að þola ekki myrkrið og kuldann. Þetta er semsé allt að koma. og á miðvikudag fer ég í klippingu og á fimmtudag eru tónleikar með sólstöfum sem ég syng á og svo bara verður farið í eitthvað massíft jógasessíon til að hrista upp í mannskapnum (mér, þ.e.a.s. mannskapurinn er ég, the royal we...) Jájá, dugir ekki að hanga bara eins og....setjið inn myndlíkingu við hæfi. Ég ætlaði að segja siginn fiskur á en mundi svo ekki hvað það heitir sem fiskar eru hengdir á. Er það sperra? neeei. Svo datt mér í hug að skrifa fáni, hanga eins og fáni á fánastöng, en það nær þessu ekki. whatevs. heehhe. Það dugir alla vega ekkert hangs, sama hverju það líkist. Febrúar, ég skora þig á hólm.

miðvikudagur, febrúar 01, 2012

Nú er bakið slæmt, og ég þarf að muna að ganga aftur. (hahaha, ganga aftur, náðuði þessum?) Annars hjólaði ég smá í gær, í fyrsta sinn síðan í október eða eitthvað og það var ansi hressandi, þótt ég gæti ekki slakað fullkomlega á sökum hálkuresta á stöku gangstéttum. Gangur er öruggari í þessu færi. Spá í að ganga í klukkutíma eða svo á eftir og fara svo á kaffihús. Bakið á eftir að þakka mér fyrir ganginn og heilinn þakkar mér fyrir kaffið. Ég sjálf hef ekkert með þetta að segja, bara geri það sem mismunandi líkamshlutar heimta af mér. Axlirnar myndu gjarnan vilja að ég héngi minna í tölvunni, og ég held að handakrikarnir séu að segja mér að fara í bað fljótlega...

þriðjudagur, janúar 31, 2012

úti er bleik birta og búin að vera síðan um hálftíu. ég svaf frá 9 í gærkvöldi til 7 í morgun. það er æði að sofa 10 tíma. ef það er möguleikaséns ætla ég að hjóla úti á eftir. hef ekki hjólað síðan í október, eða semsé síðan snjórinn kom. ég ætla að hjóla upp í háskóla, detta inn í hámu í hádeginu og fara svo kannski og týnast á þjóðarbókhlöðunni í nokkra klukkutíma. það er gaman og ég sakna þess að hanga í hlöðunni.

þriðjudagur, janúar 24, 2012

Þriðji í lasleika, og svo er ekki meiri tími til að vera slappur neitt, enda þarf að æfa fjórmenningana í Hellvar. Já, fjórmenningana, því Elvar er kominn á trommur, Haukur á bassa, og ég og Alexandra spilum á gítara og syngjum. Við erum semsagt orðin 2 strákar og 2 stelpur, alveg eins og ABBA. Ættum við að breyta nafninu í EHHA? (Elvar, Haukur, Heiða, Alexandra). Neinei, Hellvar leitar að nýjum trommara en Elvar getur næstum allt, og tekur í trommusettið á föstudaginn 27.01 á Akureyri, í galleríinu Populus Tremula, og laugardaginn 28.01 á Húsavík, á Gamla bauk. Svo vantar trommara.

mánudagur, janúar 23, 2012

kolaportið er afstaðið, og gekk vel. óliver setti nýja standarda í lágvöruverði, þegar hann seldi kallana sína á 5 krónur stykkið, og reyndi að gefa magnafslátt í ofanálag. það endaði með því að einn viðskiptavinur keypti restina upp og ætlaði að senda ættingja sínum í fjarlægu landi, litlum strák sem átti ekki mikið dót, eða aur...mjög fallegt. aðrir kúnnar fóru svo að leggja ofaná verðin sjálfir, það sem þeim fannst réttlátt og sanngjarnt,. Hann endaði því áreiðanlega á að fá bara ágætis verð fyrir bækurnar sínar og dvd sem hann er hvort eð er hættur að horfa á eða lesa. Foreldrarnir seldu bækur, músik, myndir, föt, og tónlistargræjur, og svipaður háttur var hafður á: eins lágt og fólk þurfti til að geta keypt. þýsk listastelpa fékk kjól, sem ég hafði spilað í í berlín, á 200 krónur og þýskar listabækur í kaupbæti. ein kona fékk 4 bækur á 500-kall. lífið á að vera svona: Allir geta fengið það sem þeir vilja/þurfa, þótt þeir eigi næstum engan pening og það sé farið að síga á seinni hluta mánaðarins. það er það sem er svo gott við kolaportið. ef maður nennir að leita þá finnur maður oft hluti á góðu verði og getur gert kjarakaup. það er ekkert gaman að verða að eyða 600-kalli í eitthvað, ef allt sem maður á er kannski 3000-kall til að lifa út mánuðinn. þá er svo gott að finna dót sem kostar 100-kall, eða bara 5-kall. annars var ég orðin veik í gær, og er enn í dag. það er skrýtið að vera með eyrnabólgu úti á meðal fólks. mér fannst eins og allt snérist stundum, og varð bara að setjast og ná að róa umhverfið. fórum svo og keyptum rótsterkan thailenskan kvöldmat eftir markaðinn og ég svitnaði hressilega. var sofnuð vel fyrir ellefu í gærkvöldi, gersamlega uppgefin. vaknaði kl. 0800 í morgun, slöpp en brött. verð orðin góð á morgun, finn það.

fimmtudagur, janúar 19, 2012


Sunnudaginn 22.janúar verður kolaportssala Ólivers, Elvars og Heiðu! Það verður mikið af músik á vínil og cd, einnig bækur, dvd, föt, leikföng, tölvuleikir og alls kyns hlutir sem þurfa að fá nýja eigendur, t.d. mótorhjólahjálmar!!! Allt ódýrt. 1 cd/vinil: 400 kr./5 cd/vinil: 1500 kr. Byrjar 11.00 og endar 17.00. Óliver Elvarsson er með mikið af kvikmyndum, tölvuleikjum, fötum og leikföngum sem hann er æstur í að losna við, svo eitthvað ætti að vera fyrir alla aldurshópa. Ef vel leikur á okkur verður gítarinn tekinn með og gutlað á hann í pásum.

Auðvitað verða Hellvar-diskar líka til sölu á frábæru verði! Sjáumst á sunnudaginn!

þriðjudagur, janúar 17, 2012

Ég var að átta mig á því að ég kom fram á 4 plötum árið 2011, og ég lauk Mastersritgerðinni minni í Heimspeki. Ég hlýt að hafa verið sæmilega dugleg, og samt finnst mér eins og ég hafi engu áorkað. Það er svolítið algeng tilfinning hjá mér, að átta mig ekki á því fyrr en eftirá að ég hafi haft mikið að gera. Plöturnar sem ég gerði/kom fram á árið 2011 eru: ,,Stop that noise" með Hellvar, ,,Noise that stopped" með Hellvar, ,,I need a vacation" með Ruddanum og ,,Svartir sandar" með Sólstöfum. Á Hellvar og Ruddaplötunni syng ég allt, eða meirihlutann, en hjá Sólstöfum bara í einu lagi, Fjöru. Það var einmitt verið að gera myndband við það lag og frumsýnt í dag. Hér má sjá lagið. Sólstafir eru að halda sína stærstu og metnaðarfyllstu tónleika á Íslandi til þessa þann 9.febrúar næstkomandi, í íslensku Óperunni, eða þ.e.a.s. Gamla bíói. Hér má finna miða á tónleikana. Platan verður spiluð í heild sinni, og allir gestaleikarar plötunnar koma fram. Tónleikarnir hefjast klukkan 20.00 og miðaverð er tæpur 5000-kall. Ef þú, lesandi, hefur einhvern snefil af áhuga á íslensku rokki ættirðu að fá þér miða á þetta, því það er rugl að fá að sjá Sólstafi í þessu umhverfi, í þessu húsi, við þessar aðstæður.

föstudagur, janúar 13, 2012

lífið er flókið...

þriðjudagur, janúar 10, 2012

sólarhringur illa viðsnúinn, en ég svaf frá 4 til 11 í morgunn. hef þó náð að dotta ekki í letikasti og orkuleysi dagsins í dag. ef ég bara hefði nú drullað mér í gönguferð væri þetta eflaust bara allt alveg ágætt, en svo gott var það ekki. er líka skítkalt, og með stinguhausverk og fæ hnerraköst, þannig að kannski er ég ekki eingöngu skammdegisþunglyndur aumingji (sem er þó viðbúið á þessum hluta árs) heldur einnig með smá kvefpest. hef reyndar líka slím í hálsi og kverkaskít...er sem betur fer ekki að syngja neitt alveg strax. þó er hellvar að fara norður að spila á akureyri og húsavík síðustu helgina í janúar, og svo er líka eitthvað sólstafagigg sem ég syng eitt lag á, en það er í upphafi næsta mánaðar. það hefur lengi verið aðalbömmerársins að þrauka janúar, mörg ár síðan ég hætti almennri gleði yfir afmælinu mínu og svona. þ.e.a.s. jú, ég gleðst yfir afmælinu mínu á hverju ári, það er gaman að eiga afmæli, en það rífur ekki upp stemmninguna í janúarmánuði öllum eins og hér áður fyrr, þegar ég var telpukrakki. já, las konan við þúsund gráður e. hallgrím helga. besta bók í heimi! svo fáránlega fokking góð að ég held ég verði bara að lesa eldri hallgrím og athuga hvort mig er að misminna svona herfilega um hann sem rithöfund. minnir að ég hafi ekkert bondað við herra alheim, og gefist upp á 101 reykjavík og fundist kvikmyndin betri en bókin (sem gerist eiginlega aldrei). já, ég er að treina mér nýju murakami sem ég fékk í jólagjöf, bara tími ekki að byrja á henni, kannski um helgina næstu. vakna snemma (af því ég verð búin að snúa við sólarhringnum auðvitað) og koma mér fyrir með tebolla og hollt snakk, kannski hnetur, og lesa nýja, þykka, brakandi murakamibók. ég þarf reyndar að taka upp demó af lögum líka og koma mér í tónlistarvinnugírinn, en það er svo gaman að ég geri það eins og hendi væri veifað. það eina sem er ves við tónlist er að byrja, svo kemur bara einhver andi sem klárar allt dæmið. jájá og sei sei já. ætla að gera hrísgrjónasalat úr grjónum og grænmeti og ostbitum og kryddi og sjitti, og sjóða egg. vó rafmagnið blikkar. það er að verða rafmagnslaust hér bráðum út af veðri. sjiiiiiiiiiiiiiit.

mánudagur, janúar 09, 2012

Finnst eins og bloggið mitt hafi misst sig útí hluti sem ég er að fara að gera eða hluti sem ég minni sjálfa mig á að ég verði að gera. veit ekki hvort það er jákvæð þróun. blogg er náttúrulega alveg galopið form og það besta er að mun færri lesa það en facebook svo maður ætti að vera enn frjálsari. það er samt spurning hversu frjáls maður getur nokkurn tíman orðið í skrifuðu máli. ég gæti sagt hvað sem væri með munninum heima í stofu, en það eru líka bara "orð sem hverfa í tómið" (er þetta nafn á júróvisjónlagi eða hvað?) Nú sit ég í fótabaði á nærbuxunum í stofunni minni og velti fyrir mér hvað ég ætti að blogga um, ef ég ætla nú að láta þessa bloggsíðu standa undir nafni. Hún heitir "skemmtilegt að vera til ef maður vill", en er akkúrat núna að fjalla um sjálfa sig. það er eiginlega fyrirbærafræðileg nálgun á bloggið. þegar bloggið er farið að fjalla um bloggið, án milliliða og í rauntíma. Fyrirbærafræði er reyndar afar skemmtilegt fyrirbæri, svo með þessu móti er ég líklega að sleppa sæmilega fyrir horn. Ég er allavega hvorki að blogga um skaupið, hrunið, ríkisstjórnina, gillz, né nein önnur dægurmál sem eru hver öðru leiðinlegra. Já, var ég búin að segja ykkur að ég fór til Berlínar í 5 daga? Þar fékk ég risaskammt af "ég kæri mig kollótta-lyfinu" sem virðist hanga í loftina þar í borg. Labba nú um laugaveginn eins og ég búi í milljónaborg, í stað þess að reyna að horfa í andlitin á öllum sem ég mæti, til að athuga hvort ég þekki viðkomandi eða ekki og hvort ég eigi að segja "hæ", brosa, eða láta nægja að nikka óvíst. Ég labba nú bara í eigin heimi og fyrir vikið heldur fólk að ég sé dópuð eða drukkin á miðjum degi, nú eða svona ógurlega mikið merkikerti að ég þykist engan þekkja. En ég kæri mig kollótta. Lífið byrjar ekki og endar í Reykjavík, á Íslandi, og ég er frjáls.

sunnudagur, janúar 01, 2012

Gleðilegt ár. Það er eitthvað við þig, 2012, ég veit bara ekki hvað. Mörg skemmtileg verkefni, margir tónleikar, utanlandsferðir, hlátursköst, bara vel heppnaðar bíó- og kaffihúsaferðir, jógatímar, gönguferðir, aldrei láta 24tíma líða án þess að hafa látið vélina sem líkaminn er fundið leið til að reyna eitthvað á sig, aldrei að láta sömu 24tíma líða án þess að slaka á. Þetta verður doldið gott!