Leita í þessu bloggi

fimmtudagur, október 17, 2013

Langspil á Rás 2, sunnudagskvöld, síður og podkast/hlaðvarp

http://www.ruv.is/langspil Þetta er krækja á heimasíðu þáttarins sem ég var að byrja með á Rás 2. Hann heitir Langspil og verður alla sunnudag klukkan 19.30 til 21.00. Það verður hægt að hlusta á þættina um aldur og ævi, og um ókomna tíð á netinu ef maður fer til dæmis á þessa síðu sem er podcast-síða Langspils. Þarna borgar sig að nota einhvern annan vafrara en google-chrome, því annar kemur bara eitthvað bull. Mig langar mest af öllu til að sem flestir hlusti á þessa þætti sem ég er að gera um nýja og gamla íslenska tónlist og því er ég að auglýsa hér og um allt. Það er til dæmis líka til facebook-síða fyrir þá sem nota svoleiðis. Ef ég mætti ráða, væri heimurinn mun áhugasamari um útvarp og mun minna áhugasamur um sjónvarp, en með tilkomu nútímatækni er reyndar hægt að hlusta á útvarpsþætti hvenær sem er og það er nú gott. Þá á enginn að geta misst af einhverju útvarpsefni sem hann/hún hefði alveg verið að elska. Kæru lesendur, hjálpiði mér að auglýsa þáttinn sem best svo allir viti af öllum þessu leiðum sem eru til staðar, til að fylgjast með. Íslensk tónlist, ný og gömul, er ótrúlega spennandi og ég hef brennandi áhuga á henni, og sérstaklega þeirri sem heyrist kannski ekki út um allt. Var að fatta að það eru bara rúmir 5 mánuðir þar til Músiktilraunir hefjast aftur. Það eru semsagt rúmir 6 mánuðir síðan þær voru síðast. Svona mikinn áhuga hef ég á tónlist. Og svo er Airwaves eftir 2 vikur, sem er mjög gott. Ég vona að allir tónlistaráhugamenn reyni að stimpla þennan tíma, sunnudagar kl. 19.30, inn hjá sér, og ef það hentar ekki til útvarpshlustunar að gefa sér tíma síðar til að tékka á Langspili. Ég þakka lesturinn. Og P.S. það er frábær sýning sem tengist jaðar-útgáfu íslenskri í andyri Þjóðarbókhlöðunnar akkúrat núna. Mæli með.

sunnudagur, október 06, 2013

Langspil í kvöld og ljóð í strætó

Kæru félagar og áhugamenn um bloggmenningu! Ég er ekki nægjanlega dugleg að blogga, því fjárans facebookið hefur yfirhöndina. Það breytir því þó ekki að ef maður vill tjá sig um eitthvað er mesta pláss til þess hér. Twitter gefur manni 3 setningar, facebook hálfpartin krefst þess að það sé mynd eða vídeó eða linkur eða eitthvað skærlitað og "instant" sem fangar athyglina. Þeir sem enn geta lesið texta og haldið athyglinni lesa og skrifa blogg. Þessi færsla er þá fyrir þá. Að sjálfsögðu geta samt allir lesið og skrifað í dag, enn að minnsta kosti, en stundum finnst mér að fólk nenni því ekki og/eða gefi sér ekki tíma til þess. Ég er sjálf sek að því sama, þótt náttborðið mitt sé aldrei nakið, heldur hulið bókum. En allavega, í kvöld hefst Langspil, nýr þáttur sem ég stýri á Rás 2, og verður hann vikulega á sunnudagskvöldum klukkan ca. 19.30, eftir kvöldfréttir. Þar mun ég spila íslenska tónlist, nýja og gamla, og hlakka ég mikið til fyrsta þáttar í kvöld. Ég hef beðið með óþregju eftir að gera útvarpsþætti en það eru víst liðin 6 ár frá því ég gerði síðast þátt fyrir Rás 2. Síðan þá er búið að breyta öllu sem hægt er að breyta tæknilega, og ég er þessa dagana sveitt að læra á nýja tækni og nýjar græjur. Það er gaman, alveg ótrúlega gaman. Hér er heimasíða þáttarins: http://www.ruv.is/langspil/hljomurinn-fundinn Í öðrum fréttum. Það eru víst 2 ljóð eftir mig á ferðalagi í strætisvögnum Reykjavíkurborgar, og ómögulegt að halda utan um á hvaða ferðalagi þau eru. Það er lestrarhátið í borginni og liður í henni er Ljóð í leiðinni. Í öllum vögnum eru ljóð til að farþegum leiðist ekki og geti dundað sér við lestur. Það þarf semsagt ekki að gera annað en að taka strætó og þá er maður orðinn þátttakandi í ljóðahátíð. Hér er hægt að lesa heilmikið um lestrarhátíðina og Ljóð í leiðinni: http://bokmenntaborgin.is/

þriðjudagur, september 03, 2013

a er fyrsta blogg sem ég reyni að skrifa með smartsímanum og swypetækni.það gengur illa og hvert orð er ferðalag yfir lyklaborðið með einum fingri.orðin koma hægar og því er eins og ég hugsi með vísifingri.ætla að halda mér við að hugsa með heilanum í framtíðinni.

miðvikudagur, júlí 10, 2013

Friðrik Dór - Glaðasti hundur í heimi



Fyrst ég er farin að blogga upp á nýtt þá er víst alveg tilvalið að deila með ykkur þessu lítilræði. Þetta er nú svosem ekkert annað en FYRSTI SINGULL AF VÆNTANLEGRI BREIÐSKIFU DR.GUNNA OG VINA HANS! Platan mun heita "Alheimurinn" og kemur út í október.

þriðjudagur, júlí 09, 2013

Lax, lax, lax og aftur lax...

Lífið, krakkar mínir, heldur alltaf endalaust áfram, hvort sem maður skrifar um það í bloggið sitt eða ekki. Allur júní leið, með skemmtilegri tónleikaferð hringinn í kringum landið, og nú er byrjun júlí, og hið vel heppnaða All tomorrows parties-festivalið er búið, og næsta festival, Eistnaflug er handan við hornið. Í millitíðinni hef ég verið upptekin við að taka upp plötu í Geimsteini, farið tvisvar í Sirkus (Wally and friends og Burned out Punks) og er á leið á Dionne Warwick með foreldrunum á morgun, 10.júlí. Ég er svo auðvitað að fara á Eistnaflug með Elvari og Óliver og verður það mitt 5.flug og Ólivers 2.flug því hann kom með í fyrsta sinn sem við fórum, árið 2009, og þá var hann 7 að verða 8 ára. Ég gæti ekki verið spenntari fyrir næsta festivali, þótt ég sé búin að fara hringinn þetta sumar og búin að fara á endalaust marga góða tónleika á ATP. Þetta er bara sýki, þessi tónlistardella. Er þetta ekki bara eins og laxveiði? Maður segir ekkert laxveiðimanninum að hætta bara að veiða lax... Við ætlum norðurleiðina úteftir og suðurleiðina til baka. Munurinn á þessari ferð núna er sá að við förum ekki fyrst á Strandir. Mig langar samt að komast aftur á Strandir sem fyrst, ekki láta líða nokkur ár eins og ég lét líða milli ferða á Djúpavík. Það þarf bara að koma reglulega á Djúpavík, Trékyllisvík, Hólmavík, í sund á Krossnesi o.s.frv. Það þarf líka að koma reglulega á Neskaupsstað, lágmark einu sinni á ári. Ég toppa mig í ár, 2 ferðir á Neskaupsstað árið 2013.

föstudagur, maí 31, 2013

sjáumst á snæfellsnesi, djúpuvík, akureyri, seyðisfirði og neskaupsstað!!!

Hæ, það eru svo sannarlega ekki allir á facebook, en það eiga samt allir að sjá hvenær Berglind og Heiða eru að spila í sveitarfélagi ekki svo langt frá sér. Við sleppum reyndar alveg suðurlandi og vestfjörðum, enda höfum við bara viku. Niðurstaðan var: 5 tónleikar á 7 dögum, ekkert stress og gaman í bland við spilerí. Hefðum auðveldlega getað bætt svona 4 giggum við, en þá hefði þetta orðið erfiðara. Eigum bara vestfirði og suðurland eftir síðar. svo eru nokkrir búnir að tala um að við séum að skilja höfuðborgarsvæðið útundan með þessu móti, þannig að það mætti alveg skoða eina tónleika einhvers staðar á stór-reykjavíkursvæðinu þegar ferðinni líkur. En annars góða helgi og við sjáumst á snæfellsnesi, djúpuvík, akureyri, seyðisfirði og neskaupsstað!!!

fimmtudagur, maí 23, 2013

Spritti er byrjaður að blogga mp3-blogg aftur. Ég æstist öll upp í bloggmennsku eftir þær fréttir, enda auðvitað ótækt að láta bloggið sitt, sem maður er búinn að halda úti síðan 2004, deyja, út af facebook-notkun og alls kyns annarri tölvunotkun. Nú, ég hef ekkert endilega neitt merkilegt að segja á hverjum degi, en það má alveg segja frá því hversdagslega stundum. Ég er í Keflavík að bíða eftir að bíllinn komi af verstæði og þá ætti ég að geta fengið skoðun: Ljós að aftan, viftureim sem hefur verið biluð í yfir ár, handbremsa og skott sem lokast illa. Smá bland í poka sem verður gott að fá í lag. Gamli góði bíllinn okkar klikkar ekki, og er ég farin að halda að við höfum hitt á einstaklega gott eintak bara. Corolla 1999 sem við keyptum sjö ára gamlan og höfum nú bætt sjö árum ofan á. Hva, þetta er enginn aldur fyrir spræka Corollu. 14 ára. Komin á fermingaraldurinn. Ef Corolla væri stelpa fengi hún bílpróf eftir 3 ár og mætti kjósa eftir 4. Hún hefur þó líklega það eitt að hlakka til að ef hún reynist extra spræk og endist og endist þá verður hún fornbíll 25 ára (eftir 11 ár) og þá má hún keyra í skrúðgöngu á 17. júní ef hún vill. Elska bílinn minn. Ef ég væri með mp3-blogg myndi ég núna setja inn lagið "Bíllinn minn" með Gunnari Jökli. Í staðinn verðið þið, lesendur mínir, að hafa fyrir því að finna það sjálf einhvers staðar á veraldarvefnum. Bæó.

miðvikudagur, apríl 03, 2013

Foreign Reykjavík

Today is a day where I kind of feel like I could be somewhere else than Iceland, so I'm gonna write in English to make the experience more complete. I understand there is all sorts of weather in the world, but often summer comes late here, compared to the rest of the northern hemisphere. Today, though, we have sun and mostly clear skies here, and I am looking at pictures of snow in lots of other places. Reykjavík is a beautiful city today, with people in the streets, walking and biking, and laughing children playing. I went swimming in my favorite pool, Vesturbæjarlaug, and it was so sunny I got freckles on my cheeks, from sitting in the hot-pot, and I even sunbathed just a little bit until the goosebumps took over too much. After I had sunbathed, warmed myself up again in the sauna, gone to the hot-pots and cleaned and dried myself off, I was famished. I decided to go to a supermarket to get a sandwich and juice and eat it somewhere in the parked car. I drove to Grandi, an industrial area right next to the center of Reykjavík, parked besides a fish-factory and ate my shrimp-salad-sandwich with a view over the bay to the other side of Reykjavík. From where I was parked I swear it could have been another city, a foreign one, even a bigger one than Reykjavík is. With the (few) tall buildings (I'm not even gonna try to call them skyscrapers) on the coastline, and the sun, and people in the streets and sandwich in the car, my illusion was complete. It was just a city, like any city, and I immediately felt much better about living here. Its not that I hate Reykjavík, it's just that I know it so well, and it lacks in size and surprises. But once in a while you get the illusion that there is actually a lot of things going on. Like now. Lots of tourists taking pictures everywhere. Of course it is a good looking place and I think people who know Reykjavík a little less appreciate it a bit more. It might be the same with all places in the world though. Growing up in a place will get you too accustomed to notice the magic and charm it has to offer, but when you catch a glimpse of it you understand. Tourist season is starting in Reykjavík,and when that happens you know winter is almost over. That means better weather, more variety of things to do, and look at. More singing and smiling and dancing. More surprises, I guess. More people. More sunshine and ice-cream. I went home after the sandwich and the foreign skyline and I continued a little less exotic, and more mundane things. Clothes in the dryer, answer e-mails, fold clothes, pat the cat, but I still had the "Reykjavík is OK"-feeling with me. I am gonna nurture it, and actually go out on my bike for ice-creams later in the day. Hey, the sun might be gone tomorrow, and then the people disappear from the streets and the kids go back inside to play video-games. You never know in Iceland. I guess the surprises here come with the weather.

föstudagur, mars 22, 2013

Músiktilraunir og hálf-full glös

Líf mitt hefur verið mun fjölbreyttara en líf þessa bloggs bendir til, sem er synd því ein aðalástæða þess að ég blogga er til að geta flett upp í mínu eigin lífi seinna (að því gefnu að hamfarir geri ekki allar tölvur ásamt internetinu óstarfhæfar eftir nokkur ár). En hvað um það, Músiktilraunir 2013 hafa verið í fullum gangi þessa viku og úrslitin eru á morgun í Silfurbergi í Hörpu. Þar er um algjöra lúxus-versjón af Músiktilraunum að ræða, því húsakynni eru þægileg, sæti líka, og hljómurinn nálgast fullkomnun. Það ætti því að vera hægt að mæla með því að kíkja í Hörpu á laugardag klukkan 5. Svo er ég hætt í japönsku í Háskóla Íslands og er að leita mér að dagvinnu. Búin að sækja um á einu kaffihúsi og einni sjoppu. Ætla að skoða nokkra hluti sem ég er búin að læna upp sem annað hvort skemmtilegum vinnustöðum eða sem skemmtilegu fólki að vinna þar svo vinnan sjálf verði betri. Maður er nefnilega manns gaman eins og máltækið segir, og því eru góðir vinnufélagar stundum jafnvirði nokkuð margra þúsundkalla, og gera skítalaun skárri. Það er reyndar ekki hægt að éta vinnufélagana í kvöldmat, en ef þeir eru skemmtilegir og maður hlær mikið yfir daginn er maður svo hamingjusamur að kvöldi að maður borðar minni skammt með bros á vör... Glasið er hálf-fullt...af ódýrasta Bónus-sódavatninu reyndar, en það er samt gos í því. Vú hú, lifi allt skemmtilegt og bú á leiðinlegt og þras og þvælu og lifi Músiktilraunir alveg sérstaklega og lifi unglingar og lifi tónlist. Góða helgi!

laugardagur, janúar 19, 2013

ná í sólina...

Það er bjart, það er blautt, það er logn. Lítur út fyrir að verða ágætis hjólaveður. Ég vaknaði seint, fór að sofa snemma, og er því dösuð og þreytt en útsofin. Vantar að borða en er ekki svo svöng. Vantar að læra en langar í félagsskap. Vantar að spila á gítar og syngja. Vantar að lesa bók en nenni því ekki alveg samt. Langar í te en samt líka svolítið í kaffi á sama tíma. Langar í gufu og heitan pott og sund. Langar að vera búin með heimaverkefni mánudagsins, en tími ekki líðandi stundu í þau, því þá get ég ekki verið að synda, hjóla, vera í félagsskap, lesa bók, drekka te eða kaffi, sitja í gufubaði og heitum potti. Og þar braust sólin út úr skyjunum. Hún er að segja mér að hjóla núna. Grípa bara með mér banana og gulrót og drekka eitt glas af appelsínusafa og gleypa lýsispillur. En hjóla út núna. Núna. Ekki seinna í dag. Nota sólina. Hún kemur of sjaldan í heimsókn. Sko, nú skaust hún á bakvið ský aftur. Er byrjuð að reima á mig útiskónna. Ætla að ná henni er hún kíkir aftur undan skýji. Skítt með heimaverkefni. Þau eru í bakpoka á baki mínu, verða gerð eftir hentugleikum, jafnvel eftir að sólin hefur lagt sig á eftir. Það verður að ná í sólina.

mánudagur, janúar 07, 2013

best of- skemmtilegast á síðasta ári-blogg

Velkomið árið 2013! Ég gerði margt skemmtilegt á árinu 2012 sem eftilvill er í lagi að rifja upp í einni bloggfærslu eða svo. Þetta er því best of- skemmtilegast á síðasta ári-blogg. Besta leikritið sem ég sá á þessu ári var/verður örugglega Dýrin í Hálsaskógi sem ég sá í gær í Þjóðleikhúsinu. Ef ég sé betra leikrit á árinu þá verður þetta megaleikhúsár fyrir mig. Gallinn er hins vegar sá að ég er ekki viss um að ég hafi séð eitthvað leikrit í fyrra. Ég man allavega ekki eftir því. Það er nú slappt ef ekkert leikrit er það eftirminnilegt að það stendur upp úr. Bestu tónleikarnir 2012 voru Retro Stefson á Hlemmi fyrir jól 2012, en þar mættum ég og Óliver og dönsuðum allan tímann. Næst-bestu tónleikarnir voru með Moses Hightower á Háskólatorgi í prófaviku í október. Besta rokk-/útihátíð ársins 2012 var Eistnaflug, en hei, besta rokk-/útihátíð allra ára er Eistnaflug. Þar keypti ég líka bestu kasettuna sem ég fjárfesti í á árinu en hún er með hljómsveitinni MVNVMVNTS, sem enginn veit nákvæmlega hver er í. Þeir frömdu galdragjörning á Eistaflugi, og það verður að vera galdragjörningur ársins 2012 fyrir mig. Kvikmyndaleikstjóri ársins 2012 er hinn japanski Akira Kurosawa en ég horfði á margar hans mynda í japönskum kvikmyndakúrs sem ég sat á árinu. Ég er líka byrjuð að læra japönsku, sem fær þá titilinn tungumál ársins. Ferðalag til útlanda ársins er titill sem engin utanlandsferð hlýtur þetta árið, því ekkert var farið. Ferðalag ársins er þá væntanlega bara Eistnaflug, en við flugum í fyrsta sinn þangað og því varð ekkert úr hringferðalagi sem venjulega er tekið. En hey, við keyrðum suðurstrandaveginn í fyrsta sinn, það var nokkuð gott. Kokteilboð ársins var kokteilboð Yoko Ono sem ég fékk að mæta í, og kom beint úr skólanum úr prófalestri, öll sveitt og ógeðsleg í joggingbuxum og með skítugt hár... Versta kokteilboðamúndering ársins, en besta kokteilboðið. Besta kokteilboðamúndering ársins var þegar ég og Elvar dressuðum okkur upp og mættum á opnun RIFF í Hörpunni, sáum opnunarmyndina Queen of Montreuill, sem var góð, en samt ekki mynd ársins að mínu mati. RIFF er þó klárlega kvikmyndahátíð ársins, nema ef vera skyldi Zombiefestið í Bíó Paradís, en ég man ekki alveg hvort það var árið 2011 seint, eða 2012 snemma. Ef það var 2012 þá mer það út sigur yfir RIFF 2012. Þess má geta að ég hef farið á met-margar myndir árið 2012, er bara hreint alltaf í bíó... Kæmi mér ekkert á óvart að ég hafi séð vel yfir 100 myndir í bíó á árinu. Ef það er ein í viku eru það 52, en það hafa stundum verið 2 í viku, og svo kvikmyndahátiðir... Ok, allavega 80 myndir. Ég er ánægð með mig kvikmyndalega séð, en ósátt við frammistöðuna í leikhússókn. Ég synti og hjólaði og jógaði vel á árinu. Besti hjólatúr ársins er hjólaferðin sem ég og Pabbi fórum saman frá Keflavík út að Stapa, (ekki skemmtistaðnum, heldur hömrunum í Innri-Njarðvík. Það var alveg 2-3 tíma prósess og endalaust gaman. Lentum í hagléli á leiðinni til baka, það var líka gaman. Veitingastaður ársins var SNAPS, þar átum við að minnsta kosti 2svar yfir okkur. Kaupstaður til að hanga í ársins 2012 er Hveragerði!!!! Þar hékk ég ein, með Dr.Gunna, með Elvari og með einhverjum vinum, íslenskum og erlendum á árinu 2012. Þar er gott að vera, gott að semja tónlist, gott að fara í sund og gufu og bara gaman að hanga. Hike ársins (og það eina fyrir mig) var tekið með Gunnanum, upp í Reykjadali, þar sem ég óð út í heital læk með heitum fossi og allt! Það verður endurtekið á næsta ári, en þá ætla ég að baða mig almennilega, velja sólardag og svona. Er ég að gleyma einhverju? Örugglega, en ég nenni varla að skrifa lengra blogg. Risatakk fyrir mig 2012, og 2013, þú verður að toppa þetta. Allavega bæta úr tónleikafjölda sem ég fer á og sem ég held, og leikritafjölda sem ég fer á.