Leita í þessu bloggi

þriðjudagur, desember 02, 2014

Björn í bóli

Jæja, björninn er endalega mættur og hefur tekið yfir líkama minn. Mér finnst gott að sofa 11 tíma á nóttu. Í nótt var það frá 01.00 til 12.00 á hádegi. Ég ætlaði að vakna kl. 09.00 og svo aftur klukkan 10.00 en ég gat það ekki. fór framúr og allt. kveikti á tölvu og reyndi að láta ljósið vekja mig. Fékk mér ískalt vatn. Gerði eiginlega allt sem maður á að gera til að vakna nema drekka koffín, var of löt til að nenna að búa til slíkan drykk. Vaknaði semsamt í hádeginu og nú er ég að fara að fá mér "morgunmat" áður en ég skottast uppí rúv að vinna næsta þátt. Björninn er hýðis-tengd hegðun mín sem tekur oftast yfir desember og janúar ár hvert, nema ég sé að þvælast í útlöndum með meiri birtu en hér finnst. Ég er ekki neitt döpur og sorgmædd, heldur bara orkulaus eins og tóma nutella-krukkan sem við tímum ekki að helda fyrr en búið er að skafa betur úr hliðunum á henni. Já, hún er orkulaus á miðað við alla orkuna sem venjulega fyrirfinnst í henni, og þannig er ég líka. Ég er venjulega alveg með orku á við nokkrar nútelludósir, án þess að reiða mig sérstaklega á nutella sem orkugjafa. Neinei, það er búið að vera hollur grautur og safi og ávextir og hnetur og fræ og alls kyns. nú ætla ég að fá mér hafragraut með valhnetum og sólblómafræjum og sesamfræjum og eplamús og slettu af hnetusmjöri og epla/rabbarbarasafa. tek með lárperur í vinnuna sem ég nasla í kaffinu. labba í vinnuna og það er bjart úti svo það ætti að skila einhverju. ég er samt björn, ég finn það.

föstudagur, nóvember 28, 2014

Eitt blogg í einu!

Það er hræðileg staðreynd að það séu eingöngu 4 bloggfærslur á árinu 2014, all time low blogg-ár fyrir mig, eeeeeeen.... Kannski bloggar maður minna þegar maður er að reyna að skrifa eitthvað annað. Ég er sko að skrifa bók/bækur og ætla að halda því áfram. Það ætti samt ekki að trufla bloggskrif, því það er ekki eins og bækur innihaldi sama efnivið og þann sem kveikir á bloggfærslu. Allavega...Það er föstudagur og ég er að vinna uppí rúv, að klára næsta þátt af langspili. Hjólaði í vinnuna í morgun og varð hvorki kalt né meint af því, en það var vindur og vetrarlegt. Mér finnst að allir ættu að setja eitt kerti út í glugga hjá sér á morgnanna áður en fólk fer í vinnuna. Láta loga eitt lifandi ljós í gluggum, þá væri skemmtilegra að hjóla eða labba úti á morgnanna áður en birtir. Það er nefnilega ekki kuldinn sem fælir, það er ekkert flókið að klæða hann af sér. Nei það er myrkrið sem maður klæðir ekki af sér. Ég lýsispilla, d-vítamína og probíótíka mig upp á hverjum morgni og skola þeim pillum öllum niður með stóru safaglasi (c-vítamín), og allt þetta nýtur aðstoðar koffínsins sem ég fæ úr kaffi- eða tebollum. (Fyndin setning: Ég held ég skoli þessum tebollum niður með nokkrum tebollum...) Samt þarf ég alveg að hálf-plata mig út þessa dagana. Þetta er auðvitað ekki skammdegisþunglyndi því ég er ekki döpur eða sorgmædd eða áhyggjufull, þökk sé d-vítamíni og lýsi líkast til. Þetta er samt svona hýðis-hegðun, þar sem ekkert í heiminum hefur meira aðdráttarafl en mjúka yndislega rúmið mitt með enn mýkri sæng og nýja, yndislega svæflinum mínum sem ég keypti á útsölu í sumar í einhverri búð í kópavogi sem ég rakst á í hjólatúr. Mig vantar samt stærri koddaver fyrir þennan svæfil. Skrýtið, þegar ég skrifa orðið svæfill dettur mér bara í hug orðin svefn og ræfill. Talandi um ræfil, platan Ræfill með Þóri Georg er geðveikt skemmtileg: Ég var að skoða alls kyns gömul blogg, mín og annarra, og fattaði hvað það er nú gaman að geta skoðað pælingar fyrri tíma. Ég þarf því að spýta í lófana og blogga meira til að ná upp ársfærslum fyrir 2014. En þetta hef ég svo sem sagt áður. Innantóm loforð. Samt, maður skrifar bara eitt blogg í einu... og hér er eitt blogg í einu.

þriðjudagur, júní 24, 2014

Um grá sumar-rigningarský

Sumardagurinn fyrsti er löngu búinn, líka 17. júní, hvítasunnuhelgin og jónsmessan. Ég er búin að fara til Hollands og Finnlands og ligg nú hér á sófa og horfi út um gluggann minn á regnský, dökkgrá, sem liðast framhjá himninum, ljósgráum. Það er ekkert svakalega sumarlegt við þetta ástand. Það sumarlegasta sem er í gangi eru malbikunarframkvæmdir og vegavinna um allt. Það er ótvírætt merki þess að nú sé sumar. Ég er á hjóli þessa dagana og það gengur glimrandi. Það var meira að segja smá sólarglenna í gær um hádegisbil, og í gærkvöldi á miðnætti hjólaði ég heim úr vinnunni minni í stillu og sólarlagi/sólarupprás. Þá hlakkaði ég til að eyða deginum í dag í tjilli niðri í miðborg, ja kannski bara á Austurvelli, sem væri þá jafnframt fyrsti Austurvöllur sumarsins fyrir mig. En nú er bekkirnir blautir og vellirnir votir. Ég hef hug á að hinkra örlítið og fylgjast með þessum dökkgráu skýjum halda sinn vel, burt úr miðborginni, og þá. Þá, sko, verður tekið á því. Ég á sólaráburð og sudoku-blað og allt.

föstudagur, maí 23, 2014

Súkkulaðigott?

Í gær var afar venjulegur fimmtudagur fyrir utan það að ég gerði tvo hluti sem ég hef aldrei á ævinni gert áður. Annar þeirra er það venjulegur að það er eiginlega skrítið að ég hafi aldrei gert hann áður sjálf, en hinn er líklega sjaldgæfari og skiptar skoðanir um hann, og því eiga margir aldrei eftir að deila þeirri reynslu með mér. Byrjum á venjulega hlutnum. Til að gera langa sögu stutta var ég stödd í Kringlunni, átti erindi á Bókasafnið, en var á hádegistíma svo allir voru eitthvað að gúffa í sig, svo ég sló til. Fór á indverska staðinn, sem er fínn, fékk góðan mat og þegar sterkri máltíðinni var lokið stóð ég mig að því að langa gífurlega í eitthvað sætt til að ramma inn stemmninguna sem var í maganum á mér. Mér leist ekki á ísinn og var á tímabili að spá í að kaupa mér eina Subway-smáköku, en það er ódýr og fínn eftirmatur, en svo sá ég Dominos. Ég var í hugsunarleysi búin að lesa einhvern megavikubækling sem kom inn um lúguna í vikunni í stað þess að henda beint í endurvinnslu og var því meðvituð um að eitthvað væri til á matseðlinum sem héti Súkkulaðigott. Súkkulaði er gott og því hlýtur súkkulaðigott að vera mjög gott, og ekki spillti fyrir að það væri á tilboði núna. Ég panta súkkulaðigott og fæ mér sæti. Bíð spennt. Svo er ég kölluð upp og fer og næ í steikt og löðrandi brauð, sem samkvæmt lýsingu á að vera með súkkulaði innaní og súkkulaði ofaná, og þegar ég á að velja mér glassúr til að dýfa brauðinu ofaní segi ég að sjálfsögðu "súkkulaði" því ekki vil ég spilla súkkulaðigottinu með öðru framandi bragði. Ég held á herlegheitunum að borðinu mínu, og legg varlega frá mér og stari á, strax farin að efast um að þetta hafi verið góð hugmynd. Mig skortir kjark til að byrja og ekki skánar það þegar útlendingur gengur fram hjá og gefur matnum mínum hornauga og segir hátt og snjallt: "Oh, shit". Jú, þetta var algjörlega ósjitt-móment, ég var sammála honum. Ég stóð upp og bað um hnífapör því mig langaði einhvern veginn ekki að snerta löðrandi olíusúkkulaðibrauð með berum höndum. Maðurinn sem var að ná sér í servíettu við hlið mér við borðið sagði: "Hnífapör? Á Dominos?" og ég skildi að reynsluleysi mínu væru engin takmörk sett. Lúpulega náði ég að sníkja plasthnífapör á næsta stað (Takk, Grillhúsið!)og reyndi að skera mér bita af súkkulaðigotti. Það var alveg nokkuð gott, og svo dýfði ég því í ískaldan súkkulaðiglassúr og það var eiginlega ekkert betra, en ég reyndi að borða soldið af þessu kombói og þegar ég var tæplega hálfnuð með lítinn skammt fann ég bara hvað maginn minn fór í varnarstöðu sem svo breyttist í árásarstöðu. Ég gat ekki skilið svona mikið eftir, þetta var mitt fyrsta súkkulaðigott og ég vildi líka standa með ákvörðun minni, hversu heimskuleg sem hún nú var. Og viti menn, mér tókst að ljúka sirka þremur fjórðu af litlum skammti og hætti um það leiti sem furðuleg hljóð úr maganum á mér voru farin að trufla fólk á næsta borði. Ég tók mynd af leifunum, þar sem ég vissi að ég myndi líklega aldrei aftur fá mér súkkulaðigott og svo henti ég leifunum af þessum vinsæla eftirmat sem hundruðir þúsunda manns um allan heim elska. Allur gærdagurinn er í illa lyktandi móðu. Hitt sem ég gerði? Bókaði káetu á bátahóteli í Amsterdam í eina nótt. Verður líklega aðeins skemmtilegra en súkkulaðigott.

laugardagur, maí 03, 2014

Sun Ra og Frank Zappa saman á Paddys í Keflavík!

Sumarrigning úti og ég þarf að fara í sund og gufu til að lagfæra stöðuna á hálsi og baki frá því á Rockville-hátíðinni í gær. Allt of margar góðar hljómsveitir og allt of lítil headbang-heilsa í gangi, svo ég reyndi að búa til nýja tegund af headbang-i, þar sem maður dúar í hnjánum upp og niður og heldur hálsinum beinum, en það gekk illa. svo ég held ég hafi misst mig aðeins í skelki í bringu í lokin og nú eru leiðindi í öxl, hálsi og baki. með betri kvöldum sem ég hef upplifað á Paddys, og áreiðanlega skrítnasta ball sem ég hef verið á þar með Skelknum. Þau eru þannig band, mér leið eins og ég væri að horfa á einhverja trúarleiðtoga úr annarri vídd sem bímuðu dansgólf í heilu lagi með sér aftur á sína plánetu. Ef Slelkur í Bringu voru aðeins eins og Sun Ra, nema pönkaðri, voru Caterpillarmen eins og Frank Zappa, nema ef hann hefði komið fram í Rokk í Reykjavík. Held ég geti sagt með mikilli vissu (og nokkrum þunga) að Caterpillarmen sé uppáhalds-hljómsveitin mín á Íslandi í dag. Ég ætla að missa af lokakvöldinu, sem er í kvöld, en þetta er dagskráin: LAUGARDAGUR 3. MAÍ 21:00 - Íkorni 21:45 - Johnny And The Rest 22:30 - Eyþór Ingi og Atómskáldin 23:15 - Markús and the Diversion Sessions 00:00 - Mystery Boy feat. Mixed Emotions 01:00 - 04:30 - Diskótekið Mixed Emotions Ég ætla að fara að taka litla rauða verkjapillu og labba svo í rigningu áleiðis í sund og gufu og hugsa svo málið, án þess að vita neitt mikið meira. Geri lokaorð einhvers lags með Skelki í bringu að mínum (eða eins og mér heyrðist þau vera í fallegum hávaða í gær): Allt er í rugli en ég er fín.

mánudagur, apríl 28, 2014

sumarlenging og fuglasöngur

Núna er klukkan tíu að kvöldi og það er ekki alveg orðið dimmt ennþá. ég er að reyna að bóka flug til amsterdam, óliver var í baði og elvar liggur í sófanum að lesa bók sem er 800 og eitthvað síður og hann er kannski að gefast upp, því síðurnar eru of margar og ekki nógu spennandi setningar á þeim. ég heyri fuglasöng úti. hann er næstum óraunverulegur og mér fannst í smá tíma að það hlyti einhver að vera að spila á flautu eða stæði hérna á gangstéttinni fyrir neðan húsið og flautaði fyrir munni sér. svona eru vorin á íslandi. maður þorir aldrei alveg að trúa því að það sé kannski að koma sumar og veturinn sé liðinn. ekki hægt að treysta því fullkomlega að sólin muni skína og fuglarnir syngja fyrr en það er allt í einu svo mikið af sól og fuglum að maður hreinlega verður að trúa því. þá er yfirleitt kominn júní. svo líða tveir mánuðir í þeirri alsælu sem fylgir íslensku sumri, sól, dagsbirta, fuglasöngur, blóm og býflugnasuð, og þá fer maður allur að slakna og hugsar: "mmm, ísland er alls ekki svo slæmt ég gæti alveg vanist þessu" og þá er það búið. ég þarf að trúa að sumarið sé komið fyrr, því þá fær ég sumarlengingu. þannig að ég trúi að sumarið sé komið...NÚNA. þá fæ ég nokkra daga í apríl, ALLAN maí, júní, júli og smá af ágúst. hafiði það gott og bæ.