Leita í þessu bloggi

mánudagur, júlí 30, 2007

Heiða í dag:


Takk fyrir!

sunnudagur, júlí 29, 2007

Það er svo gott að labba úti á kvöldin, sérstaklega um kvöldmatarleytið þegar fáir eða enginn er á ferli. Mér líður svo vel eitthvað, þegar ég fæ það á tilfinninguna að ég eigi bæinn ein. Það er líka frábært að hitta fólk, ekki misskilja mig, en bara stundum er best að vera aleinn með hugsunum sínum. Ég át borgara í sólinni áðan um áttaleitið, og sat í smástund á steinvegg og hugsaði. Ekkert djúpt eða neitt, bara hugsaði um hitt og þetta og allt og ekkert. Svo labbaði ég og keypti mér sjeik í eftirmat. Það var logn, sól og ég hitti engan. Rétt eins og það væru jólin bara og allir heima hjá sér. En ætli það hafi ekki bara verið eitthvað ægilega fínt sjónvarpsefni sem enginn vildi missa af nema ég. Mér finnst gott að missa af sjónvarpsefni. Get bara horft á það sem ég vil í tölvunni online þegar sá gállinn er á mér. Er t.d. búin að horfa á alla 1. seríu af Scrubs. Engar auglýsingar, og alltaf hægt að stoppa þegar maður vill ekki meir, og taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Já, ég held svei mér þá að sjónvarpstæki sé tilgangslausasta heimilistækið á mínu heimili. Útvarpið, plötuspilarinn og tölvurnar eru bestu heimilistækin. Og hraðsuðuketillinn rokkar!!!!

föstudagur, júlí 27, 2007


Þetta er Harry Potter-fjölskyldan á leið á frumsýningu myndarinnar


Annars hef ég verið eitthvað andsetin síðustu daga


En annars erum við bara almennt sæt og skemmtileg!
Góða helgi!

þriðjudagur, júlí 24, 2007

Mér líður eins og ég hafi farið í langt ferðalag til galdraheima og til baka, en í raun og veru var ég mjög mikið bara á stofusófanum. Þetta hlýtur að vera besta ævintýrabókmenntasería sem hefur verið skrifuð. Jæja, þá er bara að byrja á henni aftur og lesa hægt í þetta sinn, njóta.

föstudagur, júlí 20, 2007

Harry Potter kemur í dag! Sjáumst í Máli og Menningu. Heiða

sunnudagur, júlí 15, 2007

Þriðju næturvaktinni lokið. Vei. Vakandi á sunnudagsmorgni klukkan hálf-átta og líður eins og ég hafi svindlað mér inn í heim A-manneskjunnar bakdyramegin. Man ekki til þess að ég hafi nokkurn tíman vaknað af sjálfdáðum klukkan hálf-átta á sunnudagsmorgni. Er að hlusta á rauðu safnplötuna með Bítlunum. Allir í Leifsstöð á leið til útlanda fara frá Íslandi með Bítlalög á heilanum, þökk sé mér!
Það er góðverk dagsins, því Bítlarnir eru svo mannbætandi. Eleanor Rigby að spilast núna. Ahhhh, rúmið mitt með mjúkum kodda og himneskri sæng bíður mín. Tralala.

laugardagur, júlí 14, 2007

Mér finnst eitthvað svo mikil tilvist í lífi mínu þessa dagana, kannski er það bara af því að ég er hætt að horfa á sjónvarpið út af auglýsingum. Ef til vill horfir maður á heiminn öðruvísi ef maður er laus úr viðjum sjónvarps og búinn að skipta glápinu út fyrir bókalestur. Ég er alveg gjörsamlega á kafi í Murakami, var að klára Kafka on the shore, og hvílík snilld. Er búin að sjá nýju Harry Potter, geðveik. Mættum í búningum á frumsýningardaginn, ég, Óliver og Elvar. Hlakka til þegar síðasta bókin kemur í Menn og Málningu í lok mánaðarins, ætla að mæta á miðnæturopnun!!! Svo er ég búin að fara tvisvar út að ganga að nóttu til, það er alveg stórkostlegt að gera það á sumrin í góðu veðri. Uppgötva alltaf eitthvað nýtt í hvert sinn sem ég geng einhvers staðar um að nóttu til. Stundum uppgötva ég eitthvað um umhverfið og stundum um sjálfa mig. Að ganga um og hlusta á tónlist er líklega eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Og að lesa bækur. Og að knúsa Óliver og Elvar. Og að spila á gítar og syngja. Og að liggja í hengirúminu okkar. Bæ.

miðvikudagur, júlí 11, 2007




Games at Miniclip.com - Flashman
Flashman

Avoid the ghosts, eat power pills to eat ghosts!!.

Play this free game now!!

Besti vinur minn úr tölvuleikjaheiminum
Heimska mjólk
hvað er að vera þú?
Það er að vera súr og ógeðsleg
Já, það er að vera þú!

Ljóð eftir Elvar, hrópað upp í fyrirlitningu í morgunsárið.
Ég hef unnið ansi margar vinnur frá því ég tók þá fyrstu og þar til nú. Mig langaði að rifja þær upp og ákvað að gera það bara hér og telja þær í leiðinni.
1. Seldi Faxa fyrir afa oft, byrjaði ca. 9 ára kannski?
2. Fékk að vera sendill fyrir Sjúkrahúsið í Keflavík eitt sumar, klukkutíma á dag, árið 1982.
3. Passaði börn eitt sumar, var í vist eins og það var kallað. Strákarnir hétu Siggi og Ási, og þetta var árið 1983.
4. Fékk vinnu í einhverju frystihúsi í Ytri-Njarðvík, (kannski hét það Sjöstjarnan?), einn mánuð, svo út til Bandaríkjanna með pabba og mömmu og svo aftur einn mánuð í frystihúsinu. Var aðallega að ormahreinsa og skera úr. Úff man að ég átti að bíða á Aðalstöðinni eftir að rúta kæmi og næði í mig á morgnanna og fyrsta morguninn missti ég af henni og fór að grenja og hljóp heim til mömmu sem keyrði mig. En ég var líka bara 13 ára árið 1984.
5. Fékk aðra fiskivinnu, en í þetta skipti töluvert skemmtilegri. Lítið fiskihús, fékk að skera flatfisk og pakka, og stundum að vera á frystibandinu, sem var ýkt stuð. Nýfermd árið 1985.
6. Fékk bestu fiskivinnuna til þessa, nú í Stórumilljón sem var stórmerkilegt frystihús við endann á Vatnsnesvegi. Þarna vann farandverkafólk frá Ástralíu og Suður-Afríku og stóru strákarnir í pönnunum voru sætir. Tóti tönn vann þarna, og hann var með fáar tennur, reykti gras og sagan segir að kötturinn hans hafi gert það líka. Þarna var bónuskerfi og verkstjóri í glerbúri og merki sem safnað var þegar hver bakki var búinn og allt. Reykingapásur á hverjum klukkutíma (ég reyndar ekki byrjuð að reykja þarna). En ég semsagt bara vann í Bubba Morthens-texta sumarið 1986.
7. Fékk vinnu í flugeldhúsinu fyrir Atlandsflug. Vann hjá Axel Jónssyni veitingamanni sem rak líka Glóðina og Lang-best. Mjög gaman enda ég líka búin með Gaggó og á leið í Fjölbraut árið 1987.
8.Get ekki munað hvað ég vann 1988. Finnst eins og það hafi verið fiskur, en hvar? Hmmm.
9. Vann hjá kananum á Hotel Navy Lodge sumarið 1989. Reyndar bara í júní og júlí því í ágúst fór ég sem skiptinemi til Marseille í Frakklandi og var í ár. Las The Shining þetta sumar, og bondaði vel við lýsingarnar á amerískum hótelteppum og fleirru í þeim dúr.
10. Spilaði á tónleikum allan ágúst 1990 úti í Frakklandi og fengum greitt fyrir það. Telst til fyrsta ársins sem ég fékk smá innkomu fyrir að spila tónlist.
11. Já 1991 vann ég í plötubúðinni Hljómval í Keflavík...
12. ...og aðra hvora helgi á Ránni sem barþjónn, enda ný-orðin tvítug. Svo hætti ég á barnum og fór að selja miða inn.
13. 1992 fór ég til Marseille og reyndi að vinna fyrst sem þjónn á veitingahúsi en fékk ekki greitt og því fór bandið mitt, Something Else, aftur af stað og við unnum fyrir okkur með spileríi fjögur kvöld í viku allt sumarið.
14. Fékk vinnu í leikfangaverslun eftir að ég lauk stúdentsprófi frá F.S. árið 1993.
15. Var flutt í bæinn og byrjaði í Háskóla Íslands árið 1994 og því fékk ég mér sumardjobb í bænum í fyrsta sinn. Fékk vinnu á lagernum hjá Heilsuhúsinu, í Auðbrekku í Kópavogi. Var það hálft sumar....
16. ...og hinn helming sumarsins 1994 var ég að vinna í Svarta Svaninum, sjoppu, ísbúð, grilli og vídeóleigu á Rauðarárstíg.
17. Sveitaballarúntur tekinn árið 1995 með hljómsveitinni Unun. Ekkert unnið annað, enda var þetta full-time job og meira til.
18. Vann í söluturninum Texas á Ingólfstorgi árið 1996. Fínt bara.
19. Fór til Bretlands og fluttist svo heim aftur og fékk vinnu á Gott í gogginn á Laugavegi, fyrir ofan Kofa Tómasar frænda. Þetta var árið 1997.
20. Fór að vinna hjá póstinum sumarið 1998. Bréfberi. Ýkt gaman. Var með Hringbrautina. Stoppaði í ís í JL-húsinu í sjoppunni þar sem er nú hætt og komið er apótek í staðinn.
21. Var aftur bréfberi sumarið 1999, með Hringbrautina enn á ný. Vann held ég með skóla svo til áramóta. Þá var ég nú spræk maður. Beint úr burðinum og mætt í tíma í heimspeki bara. Jess!
22. Sumarið 2000 unnu ég og Curver í hljóðveri allt sumarið að því að gera plötuna Svarið. Tvímælalaust besta sumardjobbið til þessa.
23. Vorið 2001 vann ég hjá Gróðrastöðinni Mörk. Það var nokkuð gott.
24. Sumarið 2001 var ég ófrísk og við bjuggum á Laugarvatni. Þar vann ég í Íþróttamiðstöðinni við að vaska upp og skammta mat og gera sallöt og fl. þar til ég labbaði á hurðakarm og fékk fullan bakka af diskum á kaf í bumbuna. Læknir skipaði mér að hætta að vinna (komin 7 mán. á leið). Fór í gufubað daglega og sólaði mig. Mmmm.
25. Sumarið 2002 held ég að ég hafi útskrifast með B.A. úr H.Í. Svo held ég að ég hafi byrjað að vinna í útvarpinu með næturvaktirnar og verið eitthvað að skrifa frílans, m.a. fyrir Veru og Mannlíf.
26. 2003 vann ég fyrst á Asíu í hádegishlaðborðinu þeirra.
27. ....Svo fékk ég vinnu sem prófarkalesari fyrir Fréttablaðið, og var einnig með útvarpsþættina.
28. Fór aftur í póstinn árið 2004 en skrifaði líka fyrir Mannlíf, Moggann og Vesturbæjarblaðið. Vorum á leið til Berlínar um haustið.
29. Vann sem fyrir mér sem trúbador bæði á tónleikum og á götum úti. Reddaði oft fyrir mat. 2004-2005
30. Vann í Gufubaðinu á Laugarvatni sumarið 2005, eftir að við komum frá Berlín. Vei, hvað það var gaman.
31. Fékk vinnu á Blaðinu við að skrifa haustið 2005....
32. ....og fór að sjá um Ungmennafélagið, unglingaþáttinn á Rás 2. Enn með Næturvörðinn líka. 2005-2006. Gerði svo þáttaröð á Rás 1 árið 2006. Árið 2007 vann ég á Rás 2 fram í mars og....
33. fór þá í framboð fyrir V.G. og rak líka framboðsskrifstofuna. Var nokkurs konar atvinnupólitíkus í svona 2 mánuði árið 2007.
34. Sumarið 2007 held ég áfram að vera lausapenni fyrir Moggann sem ég hef gert í nokkur ár, en fæ líka vinnu í Skífunni í Fríhöfninni í Leifsstöð. Þar er ég nú.
Auk þessa hef ég minningar um:
35. saltfisk eitt haustið þegar ég kom frá Frakklandi árið 1992.
36. Vann á Síberíu netkaffihúsi sem netþjónn árið 1995.
37. Seldi geisladiska fyrir Smekkleysu, fór eina hringferð um landið og kom diskum inní búðir og kaupfélög.
38. Vann í uppvaskinu á einhverjum skemmtistað í Keflavík.
39. Vann í eldhúsinu á Fjörukránni í nokkrar vikur, minnir að ég hafi sloppið við að vera í víkingafötum, en er þó ekki 100% viss.

Man ekki meir í bili, þetta eru alveg 39 störf. Ég hef unnið sem: Blaðsölustúlka, Sendill, barnapassari, fiskvinnslustúlka, flugvélamatreiðslustúlka, herbergisþerna, tónlistarmaður, afgreiðsludama, barþjónn, miðasölustúlka, lagerstúlka, sjoppustúlka, netkaffiþerna, bréfberi, garðyrkjustúlka, eldhúshjálp, prófarkalesari, blaðamaður, útvarpskona, gufubaðsstúlka, trúbador, sölumaður og pólitíkus.
Geri aðrir betur!!!

sunnudagur, júlí 08, 2007



Fyrir mömmu: Stórmynnta parið
vitiði, það er bara svakalega gaman að vera til! Sól og sæla og endalausar gufu- og sundlaugarferðir bara. Humar og steikur í matinn í gær. Júbbí! Er orðin brún og feit eftir helgina....

föstudagur, júlí 06, 2007

Voðalega er gaman að vera í helgarfríi, og það er meira að segja planað ródtripp og allt. Verð að segja að þetta sumar er með besta móti bara. Gaman að hitta útlendinga sem leita að góðri tónlist. Sumir tala enga ensku og það eru mikið Frakkar og Þjóðverjar, svo ég fæ að æfa frönskur og þýskur. Það er stöð. Í kvöld er Melbæjarskelda og ég tek með hljóðfæri, brauð og ost og eldivið ef ég finn eitthvað óblautt. Síjúleiter

þriðjudagur, júlí 03, 2007

Sund, salat, hengirúm, bók eftir Murakami, myndir eftir Wim Wenders, ónlist frá Alberti, smá gítarspil, þetta eru svona hælæts undanfarinna daga.

sunnudagur, júlí 01, 2007


Cannibal corpse í kvöld! Mikið rosalega eru þeir með óhugguleg plötukover. Ég valdi ekki það ljótasta, bara meikaði það ekki því ég veit að mamma les bloggið mitt og svoleiðis. En mamma, þetta er bara ímynd, þessir gaurar eru ekkert slæmir í alvöru sko. En ægileg plötukover alveg.