Leita í þessu bloggi

miðvikudagur, september 28, 2011

Hellvar spilar gauk stöng kl. 11 í kvöld. 500 spírur inn. ekki vera lúser, koddu í partý. ég er svöng. ætla að fá mér pixxu í kvöldmat.

sunnudagur, september 25, 2011

Það er gott að sofa, gott að lesa, gott að drekka te í eldhúsi og spjalla við foreldra, gott að vera einn og hugsa og gera sudoku-þrautir. Þetta hef ég gert í rúmlega hálfan sólarhring. Fer bráðum út að viðra mig. Ætla að labba eða hjóla í sund og gufu. Vona að pabbi láni mér hjólið, þá get ég koverað stærra svæði. Kaffi er gott líka, búin að fá svoleiðis. Tímaleysi í foreldrahúsi, og fyndið, mér finnst eins og þessi sunnudagur sé laugardagur. Þá verður nú gaman á morgun þegar mér finnst eins og dagurinn í dag sé dagurinn í gær!

laugardagur, september 24, 2011

Google maps segja að það séu 13.7 kílómetrar út á álftanes og ég hjólaði fram og til baka í gær. Það eru því 27.4 kílómetrar. Ótrúlegt veður og hjólastígar alla leið. Fór meira að segja sitthvoru megin við umferðargötuna hvora leið, og þekki því núna fullt af fallegum litlum útivistasvæðum í kópavogi og garðabæ. Það er lúxus að hjóla og maður gerir sér svo mikið grein fyrir því að það er leiðin en ekki áfangastaðurinn sem skiptir máli. Farin í sund og gufu til að reyna að mýkja aðeins lík-amann. Svaf í 11 tíma í nótt, frá korter í ellefu til korter í tíu. Það var NÆÆÆÆÆÆÆÆÆS! Framundan: Æf með Hellvar, og á morgun annað Æf með Hellvar, því á miðvikudaginn nk. er þetta:

http://www.facebook.com/event.php?eid=280015998677789

(fyrir óáhugamenn um facebook, eru þetta útgáfutónleikar Hellvar á Gauki á Stöng, þann 28. september. Leikin verða lög af nýútkominni plötu, Stop that noise. Hljómsveitin Nolo hitar upp og byrjar leik sinn klukkan 10 um kveldið, en Hellvar tekur svo við. Þá mun eiga sér stað gjörningurinn "bassaleikaraskipti".

fimmtudagur, september 22, 2011

Tengill á Mastersritgerðina mína!:

http://hdl.handle.net/1946/10066
Hef farið að sofa um 11-leytið mjög oft og reglulega undanfarið. Þá er ég að vakna alveg bara útsofin um hálf-átta/átta-leytið. 9 tímarnir góðu eru enn við lýði. Ég hlakka til að komast að því hvort goðsögnin um að gamalt fólk þurfi minni svefn sé rétt. Ég væri alveg til í að eyða minna en einum þriðja úr sólarhring í bælinu, í stað rúmlega einum þriðja. Fann fyrir söknuði eftir Heidegger og mastersritgerðavinnu í fyrsta sinn í dag. Það er þó miklu álagi létt af mér. Held að ég sé bara orðin svo vön því að hafa allt allt of mörg járn í eldinum að ég höndli ekki að ráða auðveldlega við vinnulagið mitt. Það er þó gífurlega hollt að vakna óstressuð. Líkaminn minn er með allt stressið og streituna fasta í sér ennþá. Furðuverkir (ekki önnur plata með Ruth Reginalds) hafa búið um sig í útlimunum, svo nú er komið að því að hitta töfralækninn minn aftur. Hann sagði mér að mæta í dag, eftir vinnu. Hlakka til að láta pota í mig og hrista mig og skoppa mér í gólfið eins og skopparabolta, og vera svo bara ónýt og í klessu....Það er svooooo þess virði eftir á.

miðvikudagur, september 21, 2011

Það verður að fara að gera eitthvað í þessum hjólunarmálum, það er alveg ljóst. Verst hvað vinnan frá 10-2 brýtur upp lífið mitt, eða eins og skáldið sagði: "Life is killing my rock'n'roll". En saltið og grauturinn og allt það...Föstudagur ekki á morgun heldur hinn gæti þó verið góður hjóladagur. Búin í vinnu 2 og óliver á laugó um helgina, og ekki æfing hjá hellvar nema á laugardag og sunnudag. Ég panta því GOTT veður á föstudagseftirmiðdag. Kannski bara hjóla ég á álftanes, tja eða hvert á ég svo sem að hjóla? Það má ekki segja Keflavík samt, þarf að vera í aðeins betra formi fyrir það. Álftanes hefur reyndar það framyfir marga aðra kosti að þar er gífurlega gæðaleg gufa (3 g) sem er ákveðin gulrót í sjálfu sér. Öldusundlaugin er svo sem ókey líka, en meira svona skemmtun sem maður vill njóta með Óliver, enda höfum við fengið nokkur hlátusköst oní henni. Svo væri hægt að bjóða sér í kaffi á bessastaði eftir sund. Hvað ætli Óli og Dorrit myndu segja ef ég mætti nú með Hellvar-disk til að gefa þeim? Ætli það megi bara droppa inn á bessastaði? Hef aldrei komið þangað...

miðvikudagur, september 14, 2011

Vörn klukkan 3. Útfrík klukkan 4.

sunnudagur, september 11, 2011

Allt í einu finnst mér eitthvað voðalega gaman að vakna á morgnanna og fara að skrifa. Við það að taka gjörsamlega pásu á Heidegger í mánuð er ég með smá svona spenning fyrir miðvikudeginum, en þá þarf ég að kynna ritgerðina mína, erindi upp á ca. 10 mínútur, sem betur fer fyrir luktum dyrum. Ég verð svona eins og stundakennari, en munurinn er sá að nemendurnir mínir eru 3 og vita allir þúsund sinnum meira um efnið en ég (eða það ímynda ég mér allavega). Ég hef þó sjaldan orðið kjaftstopp og það er með því hugarfari sem ég fer inn í þessa vörn. Ég veit helling, en aðalatriðið er að muna hvar hvað er í hvaða bók, svo ég geti flett upp á réttum stað og sagt: "Jú víst, sjáiði það stendur hér". Í gær tók ég til í eldhúsinu og gerði fullkomna skrifstöðu (nýyrði: aðstöðu til skrifta). Aðstaðan gæti líka kallast skrifhús, eins og skrifstofa en þar sem eldhúsið er notað er það skrifhús. Minnir líka á bænhús. Hús er flottara en herbergi. Af hverju heitir svefnherbergi ekki svefnhús? Allt verður einhvern veginn þýðingarmeira í húsi sem er inni í húsi. Herbergi, það er bara einhver kytra sem maður kúldrast í. Vaknaði aftur í morgunn en hóf nú strax að skrifa í skrifhúsinu og er komin með sæmilegasta inngang, fer yfir mun á tveimur höfuðritum Heidegger og svona. Nú þarf ég bara að útskýra kenninguna hans sem ég er að skrifa um, og eitthvað svona meira... Hef líka þriðjudag til að skrifa, sem og fyrri hluta miðvikudags, en vörnin er klukkan 15.00.

þriðjudagur, september 06, 2011

Ég er með aulahæl, (þann vinstri) sem er dofinn og leiðinlegur, alveg síðan ég missteig mig og tognaði í lok febrúar 2011. Var búin að gleyma að það var nokkurn tímann eitthvað að meðan ég var í hitanum í útlandinu, það hefur greinilega góð áhrif á aulahæla að vera í hita, en nú er konstant verkur og mér líður eins og gamalli konu, fyrir utan auðvitað að vera alltaf í rokkstuði og líta út eins og unglingur ;-). En hællinn, hann er dofinn og aumur, og þrátt fyrir að reyna að maka "sore no more" á hann áður en ég fer að sofa, er mér bara alveg hreint ótrúlega íllt. Nú spyr ég lesendur mína: Hvað er til ráða til að lækna hælaverk og doða? Ég er alltaf í gufu og heitum böðum þannig að þetta er ekki skortur á dúlleríi við fætur mínar. Ég geng líka í prýðis-skóm (converse nýjum, eða dr. martens, til skiptis) þannig að ekki er um að kenna lélegu skótaui. Fótaverkjatengd ráð óskast!