Leita í þessu bloggi

miðvikudagur, júní 29, 2005

gísli, rebekka, viktor og svavar eru í heimsókn í berlín, á leið á eitt metalfestival, nýkomin af öðru sem var í frakklandi. þau BUÐU okkur á blinda staðinn, sem er bara myrkur á og allir enda á að borða með höndunum. þar fengum við surprice-menu, og innihélt hann að þessu sinni perluhænsn, strút og svín. þar með hef ég í fyrsta skipti borðað þetta téða perluhænsn, en strút og svín þekkti ég. vá hvað það var skrítið að borða í myrkrinu, og ég hélt í alvöru á tímabili að ég væri að éta snákasteik, elvar kom þeirri hugmynd inn í kollinn á mér. en, eins og fyrr, var þetta frábært, og við þökkum kærlega fyrir okkur. á morgun: hjálpum david hull að flytja, fer kannski á æfingu f. einhverja söngskemmtun, og eirik sördal hefur boðið okkur í hangiket með uppstúf um kvöldið. kannski næ ég einum eða tveimur tímum í lær þarna á milli. annars var ég andvaka í nótt, og las þýskar smásögur til að drepa tímann. það gekk það vel að ég glaðvaknaði og sofnaði bara undir morgunn. hohoho, ég held ég kunni smá þýsku.

mánudagur, júní 27, 2005

Kæri alltofstuttiþáttur!
ég get ekki fengið haloscan-kommentakerfið sem ég er búin að koma fyrir í templateinu mínu, til að birtast. síðast þegar ég gerði þetta gekk það einn tveir og galdur abrakadabra og ekkert mál,...núna lítur þetta allt út eins og það á að gera inni í kódanum, en ekkert gerist. Hjálp óskast send á heidingi at hotmail punkur com.
ein örvingluð

sunnudagur, júní 26, 2005

jæja, verð að fara að lækna síðuna af hverju svo sem hún er að þjást af. hef bara soldið lítinn tíma framundan. er búin að vera að taka því eins rólega og ég get útaf risa flugnabiti sem ég fékk á hnésbótina, ég er sko með ofnæmi fyrir moskítóflugum. fóturinn var bara bólginn en nú er þetta að lagast. þarf að læra slatta, og æ, þetta er leiðinleg upptalning á staðreyndum. dreymdi undarlega. ætla að fá mér te og sjá hvort ég muni draumana...
nei, mundi þá ekki. mæli með bókinni infernó eftir august strindberg. er rúmlega hálfnuð og hún er ótrúlega fín. fíla bækur sem fyrir koma klikkaðir kallar eða kellingar. það er smá sami fílíngur í þessari og í kafka-bókinni réttarhöldin. rosalega á ég eftir að sakna bókasafnsins hans davíðs. við erum barasta lesóð hér. besta í heimi er að liggja í 30 stiga hita í sólbaði og lesa góða bók. góð bók er gulli betri. ha, það eru nú orð að sönnu. er á leið í tyrkneskt kvennabað í tyrkjahverfinu kroizberg. það er soldið eins og byrjun á bíómynd. hvað er þetta með mig að finnast allt sem ég er að gera vera eins og atriði í listrænni evrópskri bíómynd? það er nú soldið klisjulegt. púff.

föstudagur, júní 24, 2005

þetta er athugun á því hvar bloggið kemur á síðunni!

fimmtudagur, júní 23, 2005

í dag var slatta heitt svo við fengum þá snjöllu hugmynd að fara út að einhverju vatni og ímynda okkur að við værum á ströndinni. gerðum ráð fyrir svona einum og hálfum tíma í ferðatíma og fórum því ekkert af stað fyrr en eftir dúk og disk eða sirka tuttugumínúturyfirtvö. en ferðin tók 3 tíma með allskyns farartækjum, því ein lestin fer bara á klukkutímafresti og við náttúrulega vissum ekkert um það. vorum, svei mér þá, bara komin upp í sveit, ég sá allavega beljur á beit og það er þokkalega sveitó. komum loks niður að vatninu og ég fór í panik yfir að klukkan væri orðin rúmlega fimm og ég ekki byrjuð í sólbaði. hafði verulegar áhyggjur af því að ég yrði kannski ekki brún þennan daginn. svona týpískt "íslendingur í útlöndum sem ætlar sér sko aldeilis að nota sólina"-heilkenni. en þegar niður að vatninu kom, (þurftum að ganga í gegnum skóg, sem vatnið er ínní) var einmitt lítil sól á jörðu, því hún var byrjuð að lækka smá og tréin voru því að búa til skugga á jörðinni, og ég alveg brjáluð út í tréin. lagðist samt á einn sólarblettinn og þrjóskaðist við, og þurfti að færa teppið á 5 mínútna fresti, til að elta sólina. á meðan fékk elvar sér sundsprett í vatninu, og skemmti sér voða vel við að horfa á aðfarir mínar við sólardýrkunina. að lokum var honum nóg boðin vitleysan og tók sig til og fann rjóður í skóginum, og fluttum við okkur þangað. upp frá því var sólbaðið alveg dásamlegt, og hugvit elvars hefur líklega bjargað mér frá sturlun. í rjóðrinu vorum við alein og yfirgefin og þar sem ég var líka með gul gleraugu, leið mér nákvæmlega eins og við værum föst í einhverri afar listrænni seventísmynd. par í skóginum, að lesa strindberg og nietzsche, guli effektinn á öllu. svo gáfumst við upp og rétt svo rötuðum út úr skóginum aftur, og komum heim bara ekki fyrr en hálf-ellefu eða eitthvað. meira ævintýrið, ha. held ég fari bara út í bakgarð í sólbað með nietzsche á morgun.

þriðjudagur, júní 21, 2005

þetta er ótrúlegt, ég bara man ekki hvenær ég fór í fýlu síðast, það er svo langt síðan. Bara með því að ákveða svona fyrir sig á hverjum morgni að reyna að halda ró sinni og ekki panikka sama hvað, er ég búin að vera í góðu skapi lengi lengi lengi, og það er ekkert lát á. Skulda fullt af pén. í hin og þessi málefni, og ritgerðirnar mínar bara mjakast á hraða snigilsins (en mjakast samt auðvitað) og það er bara allt í lagi. Mér gæti ekki verið meira sama. Það er ekkert betra að vera blankur og líka í fýlu í ofanálag. Eða að vera að skrópa pínu uppi á bókasafni og vera svo ónýtur af samviskubiti líka...Vá, ég trúi varla að ég sé svona róleg og afslöppuð með þetta allt, en jújú, ég sver að ég er það. Svo er bara gaman. Spilum á tónleikum á morgun og á föstudag. 2 þýskir strákar sem eru að útskrifast úr upptökuskóla vilja taka upp eitt lag með okkur sem hluta af lokaverkefninu sínu. Þeir voru hér í kvöldkaffi áðan. Skemmtilegt. Toffi frændi kom í heimsókn um helgina og við gerðum helling. Skemmtilegt. Sá Peaches dj-á laugardag og hún spilaði uppáhaldslagið mitt með Bauhaus (Bela Lukosi's dead) Skemmtilegt! Júhú, nú er þessi síða bara að standa undir nafni. Gaman! Ég er soldið klikk og er bara að hugsa um að fara að halla mér. Skemmtilegt! Sjáumst síðar. Vúhú. (Já og P.S.:The Great Destroyer með Low er besta plata sem ég hef heyrt síðan Loveless með My bloody valentine...)

mánudagur, júní 20, 2005

ha, ég veit bara ekkert hvað ég á að segja...

föstudagur, júní 17, 2005

kandífloss
á 17. júní
og kannski einn lítinn koss
á 17. júní.
(dýrðin)

Kristopf að koma á eftir, Kristín Björk kemur í heimsókn í kvöld, kannski verður slegið upp míní-þjóðhátíðardegi með þessum litla hópi, aðalhátíðarhöldin eru hjá Íslendingafélaginu í Volkspark Friedrichshein á morgun:

já þá verður grillað
og fánum veifað
og leikir leiknir
og drukknar veigar
(frumsamið á staðnum)

miðvikudagur, júní 15, 2005

æsandi heitt sumarveður hér. Nú er bara morgunverður,hádegisverður og kvöldverður framreyddur í garðinum, og gömlu heimspekingarnir lesnir þar úti líka. Við erum alveg eins og verstu smáborgarar að hugsa um að ná að verða soldið brún á hörund áður en haldið er heim á ný, en hei! þetta er nú bara eitthvað í íslensku þjóðarsálinni, að nota sólina sko. Svo lærdómur fer fram í sólstólum. Handan góðs og ills er úti í garði hjá mér!!!

mánudagur, júní 13, 2005

Engir tónleikar í þessari viku. Hálf-fegin, get lært smá. Fór í uppáhaldsskólann minn, Freie Universität í dag. Þeir eru búnir að opna nýja mötuneytið og alveg loka því gamla. Það finnst mér synd, því gamla seldi uppáhaldsgosið mitt, eitthvað svona bitter lemon en frá merki sem er betra en öll hin. Maður gat fengið sér glas af þessu úr vélinni þeirra á 60 sent, sem er nákvæmlega það sem ég hlakkaði svo til að gera,...en vei.....nýja siðmenntaða mötuneytið leysir hið gamla og kósí af hólmi, rétt eins og gerðist líka í haust með mötuneytið í T.U. Ný mötuneyti eru glötuð, gömul rúla. Siðmenningin er alltaf að hafa af okkur eitthvað sem okkkur þótti gamalt og gott. Ekkert uppáhaldsgos, og ég er því í fýlu. En samt, það er gaman að vera til. Er að lesa Endurtekninguna eftir Sören Kierkegaard. Ætla út í þvottahús, þvo og lesa og drekka kaffi. Gúddí.

sunnudagur, júní 12, 2005

Fórum í Viktoriapark í Kroizberg í gær. Sá garður státar af fjallinu Kroizberg sem hverfið heitir eftir. "Fjallið" er 66 metrar, og "klifum" við það samviskulega. Þetta mun vera hæsti punktur Berlínar, að mannvirkjum undanskildum. Þetta var ósköp notalegt, og garðurinn sjálfur er mjög flottur. Var friðaður kringum 1920 og er fullur af litlum stígum sem hverfa milli trjánna, og fossum og vatnsuppsprettum, og gömlum steinhleðslum og allskonar flottu bara. Ráfuðum aðeins þarna um, og fundum okkur svo hræódýra ítalska matstofu sem sá okkur fyrir kvöldmat. Síðan héldum við heim og horfðum á Formúlu1 tímatöku, ég sofnaði í sófanum. Keppnin sjálf á eftir, í kvöld þ.e.a.s. Gefur mér smá tíma til að læra, en ég lærði líka í gær. Tók tvo tíma í þýska málfræði, og er nú helvíti sleip í óbeinni ræðu (indirekt rede) og framtíð (sem er búin til með werde+nafnhætti af sögninni aftast). Málfræði sjálfviljug á laugardegi? Allt getur greinilega gerst. Í dag legst ég yfir valda kafla úr Schelling, Heidegger og Nietzsche og þá er helgin aftur búin. Líklega ekkert spilirí með tilheyrandi sándtékkum og róti og fíneríi í þessari viku, svo maður ætti að geta gert skurk í skóla. Skráði mig í þetta Skemmtilegt fyrir mixdiska-aðdáendur. Enginn frá Íslandi hefur tekið þátt fyrr, svo nú er um að gera fyrir fólk sem vill hafa áhrif á annað fólk í heiminum að skrá sig.

föstudagur, júní 10, 2005

Nú er komið að því. ég massa dáldið lærdóm um helgina, og þá lítur þetta allt betur út á mánudag. það er bara búið að vera ótrúlega mikið að gera í spilamennsku og svona. Bartek vinur okkar frá Póllandi kom í heimsókn í gær með kassa af prins póló og austurevrópst rauðvín, undarlegt en satt þá bragðaðist þetta rosa vel saman, þótt vínið eitt og sér væri eins og edik...Hann er að vinna í Gyðingasafninu hér í borg og bauð okkur að koma ókeypis, svo við skellum okkur í þetta safn á eftir. Fyrst smá skrif í þessa tölvublessun, og þá er samviskan friðuð. Helgin verður því miður notuð eingöngu til lærdóms, svo engir skemmtilegir tónleikar hjá öllu hressa fólkinu frá nýja-sjálandi sem við erum búin að kynnast og vilja endilega bjóða okkur á giggin sín um helgina.

fimmtudagur, júní 09, 2005

úti er alltaf að snjóa, ekki gráta elskan mín, þó þig vanti vítamín, þú færð í magann þinn mjóa, melónur og vínber fín.

þriðjudagur, júní 07, 2005

HELLVAR:
7.Juni-Schokoladen, Acherstr. 169
8.Juni-Schokoladen, Acherstr. 169
21.Juni-Zionskierchestr. 5

og e.t.v.meira
and perhaps more
und vielleicht mehr

Þar hafiði smá alþjóðlega auglýsingu frá markaðsdeild HELLVAR. Ég er farin að fá mér steipibað.

mánudagur, júní 06, 2005

Af hverju er HAM ekki til lengur? Af hverju getur maður ekki farið á HAM-tónleika þegar maður vill? Glaaaaaaaaaaaaaatað.

sunnudagur, júní 05, 2005

nokkrar tilviljunakenndar hugmyndir úr kolli mínum:
elska þrumuveður, núna er rigning og þrumur og eldingar og við opnuðum alla glugga til að heyra betur. Þurfti að kúka áðan, er búin að kúka núna, það var gott. Er að drekka te, grænt jasmínute með mjólk og hunangi er best. dreymdi leiðinlegan draum í nótt, en það var eitt skemmtilegt í honum, ég var leikkona í þjóðleikhúsinu að læra texta og máta búninga og eitthvað svoleiðis. finnst bretar yfirleitt fyndnir, og breskur húmor er fyndnastur. allt undir tuttugustiga hita er of kalt, ég er mesta kuldaskræfa sem ég þekki. talaði prýðilega þýsku í heillangan tíma í gær, töluðum um uppeldi og áhrif gamla austurþýskalands á uppeldisaðferðir á leikskólum berlínarborgar í dag. er tónlistarnörd, ég er alltaf að hlusta á, tala um, hugsa um, velta fyrir mér eða semja tónlist. meira að segja þegar ég er að lesa bók eða að reyna að sofna. er yfirleitt með allavega eitt lag á heilanum, stundum fleirri en eitt á sama tíma. finnst oft að ef fólk heyrði eða sæi inn í heilann minn, myndi það verða hrætt við mig og loka mig inni, samt er ég ekkert hættuleg. síðasta vika er búin að vera frábær: las góða heimspeki og samdi lag með elvari. í næstu viku verð ég að klára einhverjar ritgerðir, svo það verði ekki allt í síðustu vikunni.

föstudagur, júní 03, 2005

netið búið að vera í lamasessi þessa viku, var að komast í lag aftur, svo nú er bloggað. Tvennir tónleikar í þessari viku: Hotel Bar á þriðjudag, órafmagnað, og Schokoladen á miðvikudag, rafdúettinn. Mikið var okkur vel tekið þar. Kynntumst líka nýsjálenskri hljómsveit sem heitir The Modern Pants, og breskum trúbadoramanni sem heitir David Hull. Sá kom í kaffi í dag, sátum í garðinum og skiftumst á góðum ráðum um tónlist og bransann. Hann sagði að við værum allt of góð og næs, yrðum að vera "more of an asshole" til að komast áfram. Við komumst þá að því að til þess væru nú í raun umboðsmenn, svo listamennirnir gætu sleppt því að vera "assholes", og haldið bara áfram að vera næs. Svo nú leitum við að umboðsmanni sem er til í að vera asshole fyrir rafdúettinn HELLVAR. Öllum umsóknum verður svarað, allar uppástungur vel þegnar. Það gengur ekki að verða að hætta að vera næs. Ég er svo hjartahrein að það væri bara mótsögn ef ég reyndi að ruddast eitthvað mikið. En þessi David Hull er nú sjálfur alveg ótrúlega yndislegur og ljúfur maður, og líklega vantar hann bara líka umboðsmann. Í öðrum fréttum: Las Schelling í Friedrichshein Volkspark í dag, og sólaði mig í leiðinni. Heitt og gott og sól, loksins. Dagurinn einn af þessum fullkomnu, svona dagur eins og Lou Reed samdi texta um. Finnst eins og Guð hafi stráð sykri yfir þennan dag, allt var fallegt og gott, og við vorum glöð.