Af skemmtilegu og leiðinlegu sem ég hef verið að gera undanfarið.
Já, það er líklega enn að standa upp úr að hafa náð að sjá Sonic Youth flytja plötuna Daydream Nation í heild sinni, og það í fyrsta skipti sem þau gerðu það. Barcelona-borg er svo mjög skemmtileg, fyrir það hvað það er auðvelt að koma sér á milli staða og létt að rata. Meira að segja litlir vegvísar um allt sem segja manni í hvaða átt hitt og þetta er. Gerði það að verkum að ég gekk svona sirka klakklaust frá ströndinni Barceloneta og heim til mín, á Placa de Univercidad. Ok, það var langt og allt en ég var ekki að flýta mér og skoðaði eldgamla hverfið Barrio Gothica. Þar fann ég einhverja svona hönnunarbúðagötu, þar sem mig langaði í allt en hafði ekki efni á sokkapari. Mjög töff föt samt. Rambaði bara á þessa götu og þar rétt hjá var maður að spila á hörpu. Þar rétt hjá var búð sem seldi heimagerðar sápur og ég fékk mér eina með grænu te-lykt. Já, stórborgir hafa í sér þetta óvænta sem ég þarf. Stundum er nóg að finna búð sem selur heimagerðar sápur til að næra ævintýrið í sér. Borgin þarf þó að vera nógu stór til að allt geti gerst og maður viti ekki nema brotabrot, því annars kemur manni ekkert á óvart. Upplifði síðasta laugardag að Keflavík kom mér skemmtilega á óvart, og er þetta í fyrsta skipti sem svona ævintýri henda mig hér. Ég og Elvar og ÓLiver vorum á leið í sund á degi sundsins, (ókeypis í sund) og þá sáum við auglýsta myndlistarsýningu á elliheimilinu hinum megin við götuna. Svo lemtum við í brúðkaupslest af bílum sem flautuðu og létu öllum illum látum um mínútu síðar. Svo rákumst við á skilti sem auglýsti flóamarkað niðri við sjó, og við fórum þangað, keyptum vídeóspólur, spil og vínilplötur. Þetta gerðist allt á korteri eða svo, og svo bara fórum við í sund! Elska svona óplanað. En af leiðinlegu: Rosalega er nýjasta Pirates of the Caribian ömurlega leiðinleg. Ég hef ekki séð 1 og 2 en Óliver er tíðrætt um Djakk Spæró, (Jack Sparrow), sem er mikil sjóræningjahetja í augum barnsins. Hvað gerir maður ekki fyrir börnin sín? Hrikaleg leiðindi, í 2 tíma og 50 mínútur. Endalaus mynd, ....og enn ein slagsmálin....og enn einn fallbyssubardaginn....og þá kemur draugaskipið aftur.....
Leið reyndar á tímabili eins og ég væri að horfa á mynd gerða eftir sögu William S. Burroughs, eins og Naked Lunch. Svo mikil voru leiðindin að ég fór að reyna að blása upp það súrrealíska og gera það að aðalatriði. Já, ég dó. Ekki góð, ekki eyða pening í hana. Óliver hæstánægður samt, enda aðdáandi Djakk Spæró.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli